Vín um allan bæ

Það höfðu margir áhyggjur af því að íslenska vínmenningin myndi fara lönd og leið eftir hrun og þjóðin yrði að venja sig af því að neyta ágætra vína og láta sér þess í stað nægja ódýrasta ruslið sem í boði væri á markaðnum, gott ef ekki í tetrafernum eða álíka pakkningum.

Þrátt fyrir að vín hafi hækkað mikið í verði á síðustu árum og flestir þurft að slaka á kröfunum er vínmenningin ennþá ljóslifandi og áhuginn á góðum vín og mat virðist ef eitthvað er bara halda áfram að aukast.

Það hefur verið þétt umferð hingað til lands af erlendum vínsérfræðingum og margvíslegar uppákomur í gangi sem eru til marks um að vínáhuginn er ekkert að láta undan.

Á Holtinu voru Bordeauxdagar og komu tveir góðir gesti hingað til lands af því tilefni, Jerome Heranval, víngerðarmaður og stjórnandi Chateau Durfort-Vivens í Margaux og  Edouard Andre frá Compagnie Médocaine. Heranval kynnti vín frá bæði Haut-Bages-Liberal í Pauillac og Durfort-Vivens og voru nokkrir magnaðir árgangar kynntir. Hvað mest kom á óvart afskaplega aðgengilegt og sjarmerandi Durfort-Vivens 2007.

Það var forvitnilegt að hlýða á Heranval segja frá þeim miklu breytingum sem hafa átt sér stað á Vivens síðustu árin en vínhúsið hefur verið að færa sig yfir í lífeflda ræktun (biodynamic) og á því ferli að vera lokið 2014. Einungis eitt vínhús í þessum klassa í Bordeaux hefur gert alvöru úr því að fara í lífeflda ræktun, Pontet-Canet í Pauillac.

 

Um svipað leyti voru hér á landi fulltrúar frá tveimur af þekktustu vínhúsum Chile. Á Steikhúsinu við Mýrargötu, sem er ný og glæsileg viðbót í reykvíska veitingahúsaflóru, var heiðursgestur Ricardo Baettig, sem hefur verið víngerðarmaður Vina Morande frá árinu 2010. Það hentaði vel að hafa þetta á góðu steikhúsi og þarna var boðið bæðið upp á klassikera eins og hina pottþéttu Gran Reserva-línu en einnig mjög athyglisvert vín – Vigno Morande – blöndu úr Carignan og Chardonnay.

 

Á Sushi Samba var annar fulltrúi Chile staddur um síðustu helgi, vínþjónninn Martin Duran, sem kynnti þar vín fyrirtækisins Concha y Toro. Þetta stærsta vínhús Chile framleiðir mjörg afbragðs vín auk hinnar skotheldu Casillero y Diablo-línu. Terrayno eru vín sem endurspegla vel „terroir“ afmarkaðra svæða en teknir hafa verið toppblettirnir úr nokkrum ekrum til að framleiða vín sem endurspegla sérstöðu þeirra. Þá var forvitnilegt að bragða á þremur árgöngum af Don Melchor, besta rauðvíni vínhússins, 2005,2006 og 2007 en jafnframt og samhliða vínið Almaviva, sem framleitt er í sameiningu af Concha y Toro og Mouton Rothschild í Bordeaux. Almaviva-ekran var áður hluti af Don Melchor-ekrunni.

Það var töluverður munur á Melchor-vínunum, 2005 og 2007 svipuð í karakter en 2006 stífari og grænni sem rekja má til áhrifa veðurfyrirbrigðanna El Nino og La Nina. Það var ekki síst sérstakt að sjá að vínin voru kannski ekki svo ósvipuð í fyrstu en eftir því sem að þau voru opin lengi urðu Don Melchor-vínin meira chilenskari með miklum og djúpum ávexti en Almaviva fór í áttina að Bordeaux með flóknu samspili eikar og ávaxtar.

Deila.