Emilio Moro Finca Resalso 2012

Ribera del Duero á Spáni er þekktast fyrir stór, mikil og eikuð vín, yfirleitt kominn eitthvað til ára sinna áður en þau koma á markað. Flest vínhúsin framleiða hins vegar einnig yngri vín, stundum kölluð Joven, sem eru yngri og með meiri áherslu á ávöxt en eik. Finca Resalso frá Emilio Moro er frábært dæmi um slíkt vín. Það kom fyrst á markað hér með 2011-árganginum í fyrra. Það var ansi magnað vín en það sem háði því helst var að það var nær 15% í áfengi, nú er 2012 árgangurinn kominn og nýtur sín fyrir að vera „einungis“ 13,5%.

Þetta vín er dökkt, fjólublátt á lit, mikill, djúpur og gefandi ávöxtur, sultaðar plómur, sætur bláberjasafi, þægilegur sætur vanillublær og vottur af lakkrís. Mjög mjúkt, ávöxturinn þykkur og djúpur, með sætri áferð. Hrikalega flott vín fyrir peninginn.

2.599 krónur. Frábær kaup.

Deila.