2013 – ár stóru bjóranna

Ef eitthvað einkenndi árið 2013 í íslenskri bjór menningu að þá var það stórir bjórar. Borg bruggaði nokkra afar stóra og svo vaknaði einn af frumkvöðlum íslenskar bjórmenningar, Ölvisholt, af værum blundi. Einnig efndu Gæðings menn loforð um stóran bjór sem var vel biðinnar virði.

Borg Brugghús átti afar gott ár og voru þeir öflugastir með nýjungir eins og áður fyrr. Þeir héldu áfram að kynna nýja bjórstíla fyrir íslendingum og hófu árið með stæl með Surti 15 og Surti 8.1.

Surtur 8.1 er stærsti bjór íslandssögunnar og einnig sá fyrsti sem kemur af tunnu en hann var látinn þroskast í Remy Martin koníakstunnu. Stórir belgískir bjórar létu sjá sig í formi Júdasar og Ástríks. Borg kynnti einnig til sögunnar fyrsta Double IPA bjór sem bruggaður hefur verið hér á landi þegar Úlfur Úlfur lét sig sjá á vordögum eftir mikla bið, en þeir hefðu frumsýnt þann bjór ári áður en hann fór aldrei í framleiðslu.

Gæðingur stóð við persónulegt loforð í minn garð. Stóran bjór. Og sá bjór var kynngimagnaður! Gæðingur Barley wine lét sjá sig á Micro bar rétt fyrir jólin og einnig brugguðu þeir frábæran Double IPA sem bar nafnið 22 Up í samvinnu við hið frábæra brugghús Ninkasi í Oregon. Tumi Humall IPA sló einnig í gegn og þeir voru mjög duglegir að nýta sér Microbar fyrir tilraunastarfsemi sína. Saison bjór lét sjá sig þar og einnig afar bragðgóður kölsch bjór.

Ölvisholt vaknaði af værum blundi. Sumarbjór þeirra, Röðull, var afar bragðgóður IPA og honum var fylgt úr hlaði með Skaða í haust. Ævintýri þeirra í Bandaríkjunum hélt áfram og hróður Lava barst víða á árinu.

Það var því að nægu að taka þegar við ætluðum að velja bjór ársins. Eftir að hafa legið yfir öllu því helsta að þá var ljóst að 5 bjórar báru af á árinu.

5. Borg Surtur 8.1

Það er til marks um hversu hversu árið var öflugt þegar Surtur 8.1 kemst ekki ofar en 5. sætið á þessum lista. Surtur var e.t.v. einn metnaðarfullasti bjór sem framleiddur var á árinu. Hinn frábæri Surtur 8 frá því á þorranum 2012 var látinn þroskast í heilt ár á koníakstunnum. Útkoman var gríðarlega flottur imperial stout með miklum eikar og koníakskeim, vanillu og örlítilli rist. Þetta er bjór til að njóta á góðri kvöldstund.

4. Borg Giljagaur 14.1

Borg slóu í gegn í fyrra með jólabjór sínum; Giljagaur. Þessi bjór var bruggaður aftur á þessu ári með viðarspónum. Gríðarlega stórt barley wine, með keim af kókos og vanillu úr eikinni. Humlarnir eru einnig ögn áberandi, örlítið bit sem blandast vel við hinn mikla malt keim sem einkennist örlítið af karamellum. Barley wine í heimsklassa.

2.-3. Gæðingur Barley wine

Einu sinni gagnrýndi ég Gæðings menn fyrir að vera of “safe”, þ.e. að brugga bara bjóra sem væru ekki stórir í áfengisprósentu og væru ekki krefjandi bjórstílar. Ég fékk til baka frá þeim að ég skyldi bíða og sjá. Og biðin var sannarlega þess virði! Þessi bjór veitir Giljagaur mikla samkeppni sem besta „barley wine“ sem bruggað hefur verið á Íslandi. Hér eru þurrkaðir ávextir í aðalhlutverki í nefi, mikil lykt af rúsínum, döðlum og hnetum. Á tungu er hann afar bragðmikil, talsverð beiskja en þó nokkur sæta og karamellu keimur einnig. Gríðarlega flottur bjór og besta brugg Gæðings til þessa.

2.-3. Borg Garún

Útflutnings bjór þeirra Borg manna. Gríðarlega flottur Imperial Stout. Biksvartur eins og mótorolía með litlum dökkbrúnum haus. Ótrúleg lykt sem einkennist helst af melassa, vanillu, lakkrís og espresso. Á tungu er bjórinn furðu léttur miðað við áfengisprósentu en gefur samt væna fyllingu og eftirbragð sem krefst þess að maður dreypi aftur á glasinu. Frábær imperial stout sem Bandaríkjamenn eiga eftir að taka vel en þessi bjór var gerður fyrir markaðinn vestanhafs.

Skaði1. Ölvisholt Skaði

Þegar þessi listi var settur saman var nær ógjörningur að gera upp á milli efstu þriggja bjóranna. Hringt var í bjórnörda út um allar trissur og menn voru almennt á því að afar erfitt væri að gera upp á milli þessara bjóra, þá sér í lagi Skaða og Garúnar. Þetta eru allt ólíkir bjórar og því samlíkingar ómögulegar. Hinsvegar, með mun sem hægt er að líkja við sekúndubrot í 100 m hlaupi, að þá var Skaði úrskurðaður sigurvegari. Þetta er alvöru “nörda” bjór og tilkomumikill saison. Hann er mjög kryddaður í nefi, rúgur, ætihvönn, háaloft, pipar, hlöðuloft og appelsínubörkur eru áberandi. Hann er þurr í munni, með áberandi ester og jurtakeim. Þurr ending sem er mjög svalandi miðað við stærð en Skaði er 7,5% í áfengisstyrk. Ölvisholti tókst að gera frábæran saison sem tekst að halda í hefðina í saison gerð en með skemmtilegu “tvisti” sem er fólgið í rúginum og hinni al íslensku ætihvönn.

Ég óska Ölvisholti til hamingju með bjór ársins hjá Vínótekinu!

Deila.