Kóreskt BBQ-hakk

Kóreska grillmenningin hefur sína sérstöðu og einhver þekktasti rétturinn er bulgogi, sem er kjöt, yfirleitt nautakjöt, sem hefur verið marinerað í sojasósu, sykri, hvítlauk og sesamolíu áður en það er grillað. Kóreskir „BBQ“-staðir sem bjóða upp á bulgogi sem gestir grilla sjálfir við borðin hafa notið töluverðra vinsælda ekki síst í Bandaríkjunum og jafa jafnvel teygt sig hingað til lands.

Í þessum hlægilega einfalda og fljótlega hakkrétti náum við sama bragði og í bulgogi.

  • 1 kg nautahakk
  • 8 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1 dl sojasósa
  • 1 dl púðursykur
  • 1/2 dl sesamolía
  • 1 væn matskeið af rifnum engifer
  • 1/2 tsk chiliflögur
  • vorlaukur (til skrauts)
  • olía

Blandið saman sojasósu, púðursykri, sesamolíu, engifer, og chiliflögum. Geymið.

Hitið olíu á pönnu. Setjið pressaða hvítlaukinn á pönnuna (þetta eiga að vera svona 2 msk af pressuðum hvítlauk) og veltið um í olíunni í um mínútu. Setjið þá kjötið á pönnunna og brúnið. Þegar búið er að brúna hakkið er sojasósublöndunni hellt á pönnuna og hrært saman við. Leyfið að malla í nokkrar mínútur.

Berið fram með jasmín-hrísgrjónum og söxuðum vorlauk.

Fleiri asískar uppskriftir sjáið þið með því að smella hér. 

Deila.