Bergsson opnar á Granda

Það eru orðnar all margar vikur síðan að veitingahúsið Bergsson RE var tilbúið til opnunar. Vegna verkfallsaðgerða var það hins vegar ekki fyrr en í dag sem að tókst að ganga frá öllum tilskyldum leyfum og hefja reksturinn formlega. Klukkan ellefu var keyrt í gang og í hádeginu var nær fullsetið á staðnum.

Það er Bergsson Mathús í Templarasundi sem er móðurstöð Bergsson RE en í eldhúsinu í Húsi sjávarklasans á Granda er það Ólafur Örn Ólafsson sem ræður ríkjum. Hann segir að staðurinn verði opinn í hádeginu alla virka daga,  þá verði kaffiveitingar fram eftir degi og staðurinn muni einnig bjóða upp á „happy hour“ á barnum fram til klukkan sex. „Eftir það verður fólk að flytja sig annað, t.d. á Slippbarinn, að minnsta kosti fyrst um sinn,“ segir Ólafur.

 

Hönnun staðarins er í sama anda og annað í húsi Sjávarklasasans með gífurlega sterka tengingu við höfnina og lífið þar. Hvergi er hún sterkari en í gámnum, sérherbergi staðarins sem er í gámi er festur hefur verið utan á húsið.

Deila.