Baron de Ley er tiltölulega ungt vínhús, sett á laggirnar árið 1985. Það hefur hins vegar á skömmum tíma sannað sig rækilega og nær undantekningarlaust eru vínin skotheld, nútímaleg og glæsileg. Það þarf því ekki að furða að þegar við bætist frábær árgangur á borð við 2010 í Rioja komi eitthvað algjörlega sérstakt, enda var þetta eitt af tveimur vínum úr þessum árgangi sem breska víntímaritið Decanter valdi úr sem „framúrskarandi“ og gaf 95 punkta í einkunn.
Fallega djúpur og dökkur litur, blómaangan í fyrstu, rósir, síðan dökkur, öflugur og djúpur berjaávöxtur sem rennur fullkomlega saman við eikina, jörð, míneralískt, nokkur vanilla, mikið um sig, kröftug tannín, margslungið og langt, Frábært vín. Gefið því tíma að opna sig og njótið með t.d. grillaðri nautasteik.
2.698 krónur. Frábær kaup.