Geggjuð rifjaveisla

Svínarif eru afskaplega vinsæl vestanhafs og oftar en ekki eru þau tengd við hefðbundna bandaríska barbecue-matargerð sem byggist á því að hægelda kjöt yfir heitum kolum klukkustundunum saman frekar en að grilla steikur snöggt á miklum hita. Svínarif gegna oft lykilhlutverki ekki síst í grillsögu ríkja á borð við Kansas og Missouri en líka djúpt í suðrinu í ríkjum á borð við Alabama þar sem hægeldað grísakjöt hefur tengt alla þjóðfélagshópa í gegnum aldirnar.

Svínarif skiptast í grófum dráttum í´tvennt annars vegar „babyback“-rif sem eru minni og ofar á hryggnum og hins vegar hins stærri „spareribs“ sem eru neðar á búknum. Almennt eru „babyback“-rifin talin meyrari og betri en þau er líka erfiðari að fá hér á landi. Þau sjást þó stundum í betri kjötbúðum og um að gera að nuða bara í kjötsalanum. Annars má nota „spareribs“. Séu þau notuð er best að láta kjötborðið saga þynnri endann af þeim sem eru mjög brjóskmikil.

baby back ribsFyrsta skrefið er að snyrta rifin. Undir þeim er örþunn filma sem skera þarf í burtum. Það er best að gera með litlum, beittum hníf, komast undir filmuna á endunum og fletta henni af. Þetta er ekki nauðsynlegt skref en það er æskilegt.

Þá er komið að því að forsjóða rifin. Það þarf pott sem rúmar rifin þannig að vatn fljóti yfir þau. Hellið einnig um hálfri flösku af BBQ-sósu í pottinn.

Leyfið suðunni að koma upp og sjóðið rólega í um hálftíma eða svo. Það flýtur nokkur fitubráð upp sem best er að veiða upp.

Þegar rifin eru soðin þarf að skola fituna vel af þeim.

Þá byrjar ballið.  Makið rifin vel mbð BBQ-sósu og kryddið síðan vel með BBQ-þurrkryddinu frá McCormick eða öðru BBQ-kryddi. Athugið að það geta farið nær tvær dollur af kryddi ef slatti af rifjum eru elduð. Piprið þau vel með grófmuldum, blönduðum pipar. Það má svo smyrja aðeins aukalega af BBQ-sósu yfir. Leyfið þeim að standa í um 15 mínútur eða svo.

Síðan er það grillið.

Hafa háan hita á grillinu og smellið rifjunum á. Í heildina tekur um 15-20 mínútur að grilla rifin og er gott að byrja með lokið á. Það þarf að vakta rifin vel og pensla og krydda áfram allan tímann. Ágætt er að pensla þau með smá BBQ-sósu og krydda með þurrkryddi í hvert skipti sem að þeim er snúið.  Það er svo misjafnt hversu sviðin fólk vill hafa rifin. Hafið grillið opið undir lokin og passið upp á að þau brenni ekki.

Þegar rifin eru tilbúin er smá lag af BBQ-sósunni smellt yfir. Berið fram með t.d. bökuðum kartöflum, maís og Cole Slaw.

Það er gott að hafa kröftugt nýjaheimsrauðvín eða þykkan Spánverja með. Prufið til dæmis Kaliforníuvínin Apothic eða Carnivor. Og svo þarf auðvitað fullt af einnota handþurrkum við höndina því að þetta er matur sem best er að borða með puttunum.

 

 

 

 

 

Deila.