Miraval 2015

IMG_1345Miraval er eitt af mörgum virkilega góðum rósavínum sem að Íslendingum standa til boða þetta sumarið, jafnvel það besta. Þetta er líklega umtalaðasta rósavín heims síðustu árin og þá ekki einungis vegna þess að vínið er gott heldur ekki síst vegna eignarhaldsins en fyrir nokkrum árum festu hjónin Brad Pitt og Angelina Jolie kaup á Miraval í þorpinu Correns í Provence. Og auðvitað er ekki að spyrja að því að vínið varð undir eins afskaplega vinsælt vestanhafs eins og raunar rósavín almennt líkt og lesa má um hér. Víngerðin sjálf er í höndum Perrin-fjölskyldunnar, sem þekktust er fyrir Chateau de Beaucastel í Cotes-du-Rhone.

Vínið hefur fallegan ferskjubleikan lit, í nefinu þroskuð melóna, sítrus, ekki síst límóna og rauð ber, rifsber og hindber. Ávöxturinn í munni er þykkur og þéttur en líka sýruríkur, vínið lifir lengi og hefur meiri dýpt en rósavín alla jafna.

80%

2.945 krónur. Virkilega fínt rósavín, sumarlegt og gott með flestum mat, nema kannski helst rauðu kjöti.

  • 8
Deila.