Cigar City Brewing mæta á Skúla Craft Bar

Íslenskum bjóráhugamönnum gefst magnað tækifæri á fimmtudaginn 11. ágúst n.k. til að bragða öl frá einu margrómaðasta brugghúsi Bandaríkjanna, Cigar City Brewing.

Cigar City hafa um árabil verið leiðandi í bjórmenningu á austurströnd Bandaríkjanna og margir gert sér pílagrímsferð til Tampa í Flórída til að bragða á bjórum frá þeim enda er bjórinn þeirra einungis fáanlegur í Flórída og margir bjórararnir einungis beint frá krana á brugghúsinu.

Frægðarsól þeirra hefur risið hratt síðan Joey Redner stofnaði brugghúsið árið 2008. Redner hafði kynnist góðum bjór í Oregon ríki en þar eru India Pale Ale bjórar í hávegum hafðir og fjöldinn allur af góðum brgghúsum á hverju strái. Redner vildi koma þessari menningu til Tampa og fékk með sér efnilegan bruggara í lið, Wayne Wambles. Saman hafa þeir mótað Cigar City Brewing og gert það að því brugghúsi sem það er í dag.

Það er gríðarlegur fengur að fá þá hingað til lands og mun Wayne Wambles sjálfur koma og vera með kynningu á bjórunum á Skúla Craft Bar. Hann er kominn hingað til að brugga bjór með Borg Brugghúsi en nánar að því í næsta pistli. Þetta er því gott tækifæri til að hitta einn af bestu bruggurum Bandaríkjanna og spyrja hann spjörunum úr.

Þessi viðburður er afar kærkomin en það hefur lítið verið af stórum viðburðum á börum bæjarins í sumar. Skúli Craft Bar hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga og hafa nýjir eigendur barist ötulega fyrir þessum viðburði frá því að samstarf milli Cigar City og Borgar hófst. Reyndar var þetta tvísinnt á tímabili en nýjir eigendur lögðu töluvert á sig til að fá þennan bjór jafn ferskan hingað til lands eins og völ var á.

Það eru magnaðir bjórar sem verða á krana á fimmtudaginn og það virðist sem að það sé ekkert til sparað hjá Cigar City til að kynna bjórinn sinn fyrir bjórþyrstum íslendingum. Þar má helst nefna Jai Alai IPA, Marshall Zhukov Imperial Stout, Decoherence Imperial Stout og Trousseau Barley Wine en alls verða 7 kranar frá Cigar City þetta eina kvöld. Hér er því um hvalreka að ræða og um að gera að mæta snemma.

Deila.