Nýjungar frá Borg Brugghús

Borg Brugghús sitja ekki auðum höndum og senda frá sér 3 bjóra á fyrstu haustdögunum

Eftir langan feril varð „collab“ eða samvinnubjór Borgar og Cigar City frá Tampa að veruleika. Wayne Wambles, yfirbruggari Cigar City, kom hingað til lands í síðasta mánuði og stóð fyrir ógleymanlegu kvöldi ásamt Skúla Craft Bar þar sem margir af bestu bjórum Cigar City voru á krana. Eftir það lá leiðin í brugghús Borgar að Grjóthálsi þar sem bruggarar Borgar og Wayne skelltu í eitt stykki IPA sem var afrakstur margra tölvupósta og samskipta þeirra á milli.  Aycaia er suðrænn IPA en humlarnir í bjórnum gefa honum einstakan ávaxtakeim sem er afar vinsæll vestanhafs. Citra, Mosaic, El Dorado og Bavarian Mandarin svo einhverjir séu nefndir leika lausum hala og í nefi gefa humlarnir þessum bjór mikla lykt af blóðappelsínum, mangó og papaya. Á tungu er hann í þurrari kantinum og með talsverða beiskju eins og við var að búast frá kraftmiklum IPA. Líklegast einn besti IPA sem Borg Brugghús hefur bruggað. Afar takmarkað magn lendir af þessum bjór í verslum ÁTVR og mun lögmálið „fyrstir koma, fyrstir fá“ eflaust ráða.

Gréta Baltic Porter snýr svo aftur enda hinn fínasti haustbjór. Miklar umræður voru á samfélagsmiðlum um ágæti Grétu og má segja að Borg hafi látið undan þrýsting frá aðdáendum. Um er að ræða mikinn bjór, með mikla fyllingu sem ætti að verma köld kvöld í haust þegar lægðirnar dynja á landanum.

Að lokum kemur Surtur Nr. 30 aftur, en í þetta sinn fyrir erlenda markaði. Hinsvegar ættu betri barir borgarinnar að fá nokkrar flöskur af þessum taðreykta Imperial Stout.

Deila.