Lóan er mætt!

 

Borg Brugghús situr ekki auðum höndum og gefur frá sér enn einn samvinnubjórinn á degi bjórsins, 1. mars. Í þetta sinn er það norska brugghúsið Bådin sem kemur að þessari samvinnu en mikill vinskapur myndaðist milli brugghúsanna á Bryggeribrak í Oslo á síðasta ári.

Lóan er þurrhumlaður Double IPA með humlakokteilnum Mosaic, El Dorado og Galaxy. Hugmyndin var að gera Double IPA sem væri gríðarlega auðveldur í munni en væri engu að síður bragðmikill með áherslu á slunginn ávaxtakeim úr humlunum.

Lóan var frumsýnd á Kex Beer Festival um síðustu helgi og fékk mikla athygli. Lóan er afburða góður bjór og hefur greinilega tekist vel til með Double IPA stílinn. Bjórinn nær að vera mjög auðveldur þrátt fyrir hátt áfengismagn og í nefi má finna keim af stjörnuávöxtum, mango og sítrus. Talsverð beiskja er á tungu og einnig ögn af sætu.

Borg hafa í 2. skiptið á skömmum tíma gefið frá sér mjög góðan IPA en á síðasta ári brugguðu þeir afbragðs IPA bjór með Cigar City frá Tampa. Einnig tókst vel til með Úlf Úlf á síðasta ári og styttist í komu hans.

Eins og með aðra samvinnubjóra frá Borg að þá er þessi í afar takmörkuðu upplagi og því ekki úr vegi að tryggja sér Lóuna hið fyrsta svo hægt sé að njóta ferskleikans.

Deila.