Frönsk veisla á Kitchen & Wine

Hákon Már og teymið hans á Kitchen & Wine á 101 Hótel efna til franskrar veislu í kvöld. Boðið verður upp á sérstakan Gout de France matseðil þetta eina kvöld og verður einnig hægt að kaupa vínpörun með seðlinum og eftir því sem við komumst næst verða þar engin slorvín á ferðinni.

Byrjað var að efna til viðburða undir merkjum Gout de France árið 2015 en frumkvæði að þessu eiga franska utanríkisráðuneytið og stjörnukokkurinn Alain Ducasse. Markmiðið er að minna á og hylla hina frönsku matarhefð, sem hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 2010.

Hugmyndin er hins vegar ekki alveg ný heldur er byggt á hugmynd frá August Escoffier sem skipulagði sælkerakvöldverði „Dîners d’Épicure“ á nokkrum veitingastöðum um allan heim árið 1912. Forskrift Escoffiers var að boðið skyldi upp á fordrykk, kaldan forrétt, heitan forrétt, sjávarrétt, kjötrétt, franska osta og loks eftirrétt úr súkkulaði. Allt borið fram með frönskum vínum að sjálfsögðu.

Gout de France fylgir þessari sömu forskrift. Veitingahúsin eru beðin um að taka saman matseðil í frönskum anda en úr staðbundnum hráefnum þar sem byrjað eru á fordrykk og snittum, næst komi forréttur, síðan aðalréttur, þá franskir ostar og eftirréttur.

Matseðillinn á Kitchen & Wine má skoða hér. Matseðillinn kostar 6.900 krónur og vínpörun með réttunum 7.500 krónur.

Deila.