Gratavinum 2πr Priorat 2009

Priorat er hérað sem fáir vissu af fyrir ekki svo mörgum árum. Hrjóstrugt hérað í suðurhluta Pénedes á Spáni þar sem flestir höfðu gefist upp á vínrækt. Héraðið er hæðótt og brekkurnar eru brattar, hallinn frá 5% upp í 95% og ræktun einungis möguleg á stöllum. Úrkoman er líka meiri en í nokkru öðru vínhéraði Spánar. Þarna leyndist hins vegar aldagamall vínviður sem að framsæknir víngerðarmenn með Alvaro Palacios í broddi fylkingar uppgötvuðu og sannreyndu að hægt væri að nýta í vín sem nú eru  meðal þeirra eftirsóttustu á Spáni.

Cusine-fjölskyldan sem þekktust er fyrir Pares Balta-vínin er meðal þeirra sem þarna rækta vín og vínið Gratavínum 2 pí r er vægast sagt magnað. Í vínbúðunum má finna 2009 árganginn sem enginn þreytumerki eru á, enda Priorat-vínin einstaklega langlíf. Það er núna algjörlega á toppnum, í einstöku jafnvægi, gefandi og mikið vín. Liturinn er enn djúpur og þéttur og nef vínsins er orðið flókið og margslungið, kryddaður ávöxtur sem farinn er að víkja fyrir jörð, reyk, súkkulaði og þurrkuðum dökkum ávöxtum, má jafnvel greina vott af sveskjum. Þykkt, mikið um sig og mjúkt í munni. Fullkomið núna.

100%

4.399 krónur er ekki mikið fyrir vín sem þetta. Með stórsteikum, villibráð og þroskuðum ostum.

  • 10
Deila.