Tenuta Lunelli Ziggurat Montefalco Rosso 2015

Lunelli-fjölskyldan framleiðir eitt þekktasta og besta freyðivin Ítalíu, sem ber heitið Ferrari og er gert í Trento á Norður-Ítalíu. Hún hefur hins vegar einnig verið að færa út kvíarnar með Tenute Lunelli sem eru vínhús (tenute er auðvitað fleirtalan af tenuta eða búgarður) sem framleiðir vín frá þremur vínhéruðum á Ítalíu, Trento, Toskana og Úmbríu.

Ziggurat er Úmbríu-vín Lunelli, nánar tiltekið Montefalco Rosso sem ávallt er blanda úr þrúgunum Sangiovese og Sagrantino en Lunelli bætir einnig smá af Merlot í blönduna. Vínið hefur dökkan og djúpan lit, dimmrautt og ávöxturinn í nefi er kröftugur, heitur og þroskaður, sólber kirsuber og bláberjasulta, á mörkum að renna út í þurrkaða ávexti, eikin gefur líka sitt með dökku súkkulaði og reyk, Vínið er tannískt, flottur, þéttur og fínn strúktúr.

90%

2.890 krónur. Frábær kaup. Með bragðmiklum ragú-pastasósum.

  • 9
Deila.