Ecologica Shiraz-Malbec Reserve 2018 BIB

Héraðið Mendoza ber höfuð og herðar yfir önnur víngerðarhéruð Argentínu. Þau eru hins vegar til og það kemur fyrir að hingað berast vín frá öðrum svæðum, s.s. Patagóníu, Salta eða eins og í þessu tilviki La Rioja. Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að héraðið ber sama nafn og þekktasta víngerðarhérað Spánar. Það er í sjálfu sér engin tilviljun þar sem að einn af fyrstu landnemum svæðisins kom frá Rioja á Spáni og gaf svæðinu heitið Todos Los Santos de la nueva Rioja. Þetta var árið 1591 og um svipað leyti hófst vínrækt á þessu svæði.

Þetta rauðvín kemur úr þrúgum ræktuðum í Famatima-dalnum, sem er eitt af undirsvæðum La Rioja af vínsamlaginu La Riojana, sem er einn stærsti framleiðand iArgentínu.  Ecologica er vínlína þar sem vínin eru bæði lífrænt ræktuð og Fairtrade og hafa þau notið verulegra vinsælda á Norðurlöndunum. Vínið er flutt í tönkum til Svíþjóðar þar sem því er tappað á kassa. Þetta er kröftugt og ávaxtaríkt vín. Liturinn nokkuð djúpur og rauðfjólublár, í nefi þykkur ávöxtur, bláberjasafi, plómur, kirsuber, ólífur og krydd. það er þétt og fínt í munni, ávöxturinn þykkur og bragðmikill, vínið ferskt og hefur góða lengd.

80%

6.999 krónur, eða sem samsvarar 1.750 krónum á 75 cl. flösku. Þetta er fínasta matarvín, t.d. með rauðu kjöti og grillmat.

  • 8
Deila.