Kaiken Terroir Series Cabernet Sauvignon Malbec Petit Verdot 2016

Kaiken er heiti villigæsa sem flakka yfir Andes-fjöllin á milli Argentínu og Chile og táknrænt fyrir þetta vínhús. Það var stofnað 2002 af chilenska víngerðarmanninum Aurelio Montes og hefur Montes flakkað á milli yfir fjöllin síðan rétt eins og gæsirnar. Ekrur Kaiken eru fyrst og fremst á svæðunum Lújan de Cuyo og Uco en auk þess að rækja Malbec, sem ræður ríkjum í argentínskum rauðvínum, hefur Kaiken þá sérstöðu að leggja mikla áherslu aðrar þrúgur s.s. Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc og Petit Verdot.

Í Terroir Series-línunni eru notaðar þrúgur af ólíkum svæðum og leitast við að finna það svæði þar sem að viðkomandi þrúga nýtur sín best. Þessi þriggja þrúgna blanda kemur frá tveimur svæðum, Cabernet-þrúgurnar eru ræktaðar í Agrelo, sem er undirsvæði Lujan de Cuyo og Malbec og Petit Verdot í Uco. Vínið er dökkt, liturinn djúpur, örlítill byrjandi þroski. Í neifnu dökkur ávöxtur, sultaðar, kryddaðar plómur, kóngabrjóstsykur, piprað, þarna má líka greina myntu og kaffi. Í munni mjúk og fersk tannín, vínið hefur góða sýru og ferskleika, ávöxturinn þykkur og sætur.

90%

2.499 krónur. Frábær kaup. Með grilluðu nautakjöti.

  • 9
Deila.