Massolino Langhe Nebbiolo 2018

Massolino er eitt af þeim vínhúsum í Langhe þar sem að ný kynslóð fjölskyldunnar er að færa víngerðina yfir í nútímalegra horf án þess þó að fórna hefðunum og þeim kostum sem prýtt hafa vínin frá svæðinu um langt skeið. Fjölskyldan hefur starfrækt vínhúsið í Serralunga d’Alba frá 1896 og er nú fjórða kynslóðin, bræðurnir Franco og Roberto, tekin við stjórninni.

Nebbiolo er meginþrúga Langhe og þá ekki síst í norðurhlutanum Bassa Langa þar sem er að finna hin þekktu þorp Barolo og Barbaresco. Langhe Nebbiolo-vínin eru oft smærri og yngri útgáfur af Barolo og þetta er vín í þeim anda. Fölrautt, í nefinu þurrkuð ber, potopourri, þurrkuð sæt kirsuber og blóm, tannískt og þurrt, langt, þétt og þykkt. Frábært matarvín.

90%

4.299 krónur. Frábær kaup. Fínlegur og flottur Nebbiolo, tilvalinn með risotto eða hægelduðum réttum á borð við Osso Buco eða pasta með bragðmiklum kjötsósum, þess vegna klassísku Bolognese.

  • 9
Deila.