
Georgísku vínin halda áfram að vekja verðskuldaða athygli enda er þetta elsta vínræktarsvæði veraldar. Hér smökkum við hvítvín frá vínhúsinu Papari Valley sem er lítið fjölskylduhús með nokkra hektara í héraðinu Kakheti. Þetta er eitt af yngri vínhúsum landsins, fyrstu vínin komu út 2015, og víngerðin er sambland af nútímalegum aðferðum og hinni hefðbundnu georgísku kerjaaðferð eða qveri. Við heimsóttum Georgíu í fyrra og meira er hægt að lesa um georgíska víngerð og kerjaaðferðina með því að smella hér.
Hvítvínið er úr tveimur georgískum þrúgum, chinuri og rkatsiteli og í svokölluðum amber eða orange-stíl sem lýsa má þannig að hvítvínin eru gerð með sambærilegum hætti og rauðvín, það er þrúgusafinn er ekki síaður fyrir gerjun heldur látinn liggja með þrúguhýðunum. Þetta gerir að verkum að litur vínsins verður dökkur og djúpgulur.
Papari Valley Chinuri-Rkatsiteli 3 Qvevri hefur djúpan lit, gullin út í gulbrúnt, angan af þurrkuðum ávöxtum, sítrus, apelsínubörkur og apríkosur, ristaðar hnetur og jörð. Þurrt, grösugt og þykkt í munni, mild tannín.
4.650 krónur. Mjög góð kaup. Þetta er vín sem kallar á mat og er t.d. tilvalið með hvítu kjöti, reynið með kjúkling í rjómasósu eða feitum laxi.
-
8