Gerjunin í Georgíu

Georgía hefur í gegnum söguna verið merkilegur suðupottur menningar. Landfræðilega liggur landið á mörkum Evrópu og Asíu og menningarstraumar heimsálfanna hafa togast þar á og runnið saman um árþúsundaskeið. Þarna er talið að víngerð í heiminum hafi hvað fyrst orðið til en elstu minjar um vínrækt í Georgíu hefur verið hægt að rekja ein átta þúsund ár aftur í tímann. Til samanburðar hófst vínrækt í Grikklandi og Sikiley fyrir „einungis“ um 4000-4500 árum.

 Í hinni fornu víngerðarhefð Georgíu, sem er nú hluti af skrá UNESCO yfir hinn óáþreifanlega menningararf heimsins, er þrúgusafinn ásamt hýði og jafnvel stilkjum látinn gerjast í egglaga leirkerum (qvevri) sem eru grafin í jörð í nokkra mánuði á meðan víngerjunin á sér stað. 

En þótt sagan sé löng og merkileg er það þróun síðustu áratuga sem hefur sett hvað mest mark á víngerð Georgíu í dag. En fyrst þurfum við að horfa öld aftur í tímann er Sovétríkin hernámu Georgíu árið 1921. Vínræktin fór í kjölfarið inn í samyrkjubú og fjölskyldum sem höfðu stundað víngerð kynslóð fram af kynslóð var skyndilega meinað að nýta þrúgurnar sem þær ræktuðu.

Kerjavíngerðin féll heldur ekki vel að fimm ára áætlunum Sovétríkjanna sem byggðu á magni en ekki gæðum. Stórir tankar komu í staðinn fyrir kerin og smám saman fækkaði þrúgutegundum í ræktun. Þrúgur sem gáfu af sér mikið magn á borð við Saperavi og Rkatseli tóku við af öðrum og eru enn í dag ríkjandi í framleiðslunni.  Meginmarkaður georgískra vína var í Rússlandi og borgum Georgíu og þóttu Georgíuvínin bera af annarri sovéskri vínframleiðslu.

En þótt kerjavíninunum hafi verið úthýst úr samyrkjubúunum voru þau engu að síður framleidd ennþá, nánast á laun. Í kjöllurum í sveitum landsins grófu bændur niður leirkerin sín og framleiddu vín til heimabrúks úr þrúgum af vínviði sem ræktaður var í görðum eða annars staðar utan við hinar hefðbundnu ekrur, sem ekki mátti lengur nýta. Þekkingunni var  þannig haldið við kynslóð fram af kynslóð í gegnum Sovéttímann.

Allt breyttist þetta er Georgía öðlaðist sjálfstæði á ný árið 1991. Sovéski víniðnaðurinn hrundi, enda var lítill áhugi í heiminum á vínum í sovéskum stíl. Vínframleiðsla Georgíu dróst saman um 90% á örskömmum tíma er stóru verksmiðjubúin lögðust af. Nær eini útflutningsmarkaðurinn var Rússland eða allt fram til ársins 2006 er Pútín bannaði innflutning á georgískum vínum. Yfirskinið var að það væri gert af heilbrigðisástæðum en engum duldist að verið var að refsa Georgíu fyrir að vilja efla tengsl sín við Vesturlönd. Innflutningsbannið var afnumið 2013 en Georgía hafði þá dregið þann lærdóm að nauðsynlegt væri að byggja upp nýja markaði enda nærumhverfið markað af pólitískum milliríkjanúningi og átökum.  Á undanförnum árum hafa Bandaríkin og Evrópuríki á borð við Frakkland, Bretland, Þýskaland, Pólland og Svíþjóð tekið vel í hin georgísku vín og myndað nýja markaði. Vaxandi vinsældir Georgíu sem ferðamannastaðar hafa einnig opnað augu margra fyrir jafnt hinni georgísku matargerð sem georgískum vínum.

Víniðnaðurinn hefur líka tekið ótrúlegum stakkaskiptum frá því á Sovéttímanum. Vissulega má enn finna nokkur af stóru vínhúsunum sem voru ríkjandi þá en það er hjá litlu framleiðendunum sem hlutirnir eru að gerast. Aragrúi lítilla vínræktenda og vínhúsa hefur sprottið upp þar sem eldmóðurinn og nýsköpunin eru í fyrirrúmi. Það er ekki annað hægt en að heillast af drifkraftinum, sköpunargleðinni og bjartsýninni þótt oft sé  vínhúsið óhefðbundið. Tökum Nino Kakutia sem dæmi sem ásamt fjölskyldu ræktar Khikvi-þrúgur í garðinum sínum í hæðunum fyrir norðan Tbilisi. Í kjallaranum var greinilega á sínum tíma eins konar spa svæði með gufubaði, sundlaug og bar. Sundlaugin er nú notuð undir víngerðarkerin og í gamla gufubaðið er víngeymsla fyrir framleiðsluna sem samanstendur af tveimur freyðivínum, annars vegar Pet-Nat-víninu Lobster og hins vegar Feathers sem er framleitt með hinni hefðbundnu kampavínsaðferð. Þau hafa enga drauma um að vínhúsið muni taka yfir heiminn enda væri það ekki auðvelt miðað við umfang framleiðslunnar. Það er fyrst og fremst áhuginn á víni sem rekur Nino áfram, en hún lærði til sommelier við Universite de Vin í Frakklandi og fékk víngerðarmann til liðs við sig til að þróa Lobster og Feathers þar sem víngerðarhefðum Frakklands og Georgíu er splæst saman.

Annar eldhugi er Jaba Mujiri sem ákvað að feta í fótspor forferða sinna og helga sig vínrækt fyrir nokkrum árum er hann stofnaði vínhúsið Chapidon í Kartli-héraði. Framleiðslan er ekki umfangsmikil frekar en hjá Nino, rétt rúmar tvö þúsund flöskur árlega, fyrst og fremst Pet-Nat en einnig hvítvín og rauðvín. Og vínhúsið á kannski ekki mikið sameiginlegt við vínhús sem maður er vanur að heimsækja, framleiðslan er á nokkrum fermetrum í skúr við hliðina á íbúðarhúsi fjölskyldunnar á einstaklega heillandi sveitabýli þeirra. En stærðin skiptir ekki öllu máli, þau eru ekki mörg vínhúsin sem maður heimsækir sem hafa eins mikla sál og Chapidon og vínin eru lipur og heillandi. Jaba er auðvitað að feta sín fyrstu skref og vínin fyrst og fremst seld á veitingahúsum og í vínbúðum Georgíu, en þarna skynjar maður þann frumkraft sem býr undir niðri í Georgíu. Það er eitthvað mikið að gerast.

Öllu stærri er víngerðin hjá Peradze, þótt hún sé í langt í frá komin á iðnaðarstigið, svona eins og meðalstór vínbóndi einhvers staðar í sveitum Frakklands eða Ítalíu. Irakli Peraze var lengst af stjórnandi hjá stóru alþjóðlegu fjarskiptafyrirtæki en fékk þá grillu í höfuðið að hann vildi frekar vera vínbóndi en hrærast í heimi alþjóðaviðskiptanna. Hann hefur verið að reisa nýtt víngerðarhús í Armazi og kaupir þrúgur frá helstu vínræktarsvæðum Georgíu, Kakheti í austri, Kartli í miðju landsins og Imereti í vesturhlutanum. Vínin eru jafnt qvevri sem klassísk og Irakli nýtir reynslu sína úr fyrra lífi til að byggja upp útflutning um allan heim.

Síðan eru auðvitað stóru nöfnin í georgíska vínheiminum eins og Chateau Mukhrani, sem var fyrsta chateau-vín landsins. Þarna var upphaflega höll georgísku konungsfjölskyldunnar á sextándu öld og undir lok nítjándu aldar var fyrsti vínviðurinn gróðursettur í kringum chateau-ið. Allt grotnaði hins vegar niður á Sovéttímanum og hernámi Rússa og það var ekki fyrr en árið 2003 sem að endurreisn þess hófst er sænskur milljarðamæringur festi kaup á eigninni. Ekrurnar eru núna 100 hektarar, bæði georgískar þrúgur og franskar á borð við Cabernet og Merlot. Glæsileg vín í alþjóðlegum stíl, en ansi langt frá hinum villtu kerjavínum litlu vínhúsanna.  

Það sem kom manni hvað mest í opna skjöldu er krafturinn og gleðin sem einkennir vínheiminn í Georgíu. Þrátt fyrir sína löngu sögu er stemmningin meira í takt við nýja heiminn þegar hann var að vakna til lífsins á sínum tíma. Það er allt leyfilegt, hefðirnar eru virtar en það er fyrst og fremst verið að þróa þær áfram og prófa sig áfram. Leika sér með allar þær óteljandi innlendu þrúgur sem þarna er að finna og hvergi annars staðar, gera tilraunir með aðferðirnar, hvort sem það er hin hefðbundna kerjavíngerð eða hefðbundnari víngerð eða náttúruvín og allt þar á milli.  Þarna er allt að gerast. Það verður spennandi að fylgjast áfram með.

Deila.