
Ducale Oro er Chianti Classico Gran Selezione úr þrúgum ræktuðum í Castellina í hjarta héraðsins. Þetta er eitt af hinum klassísku vínum T’oskana en Ruffino framleiddi Riserva Ducale í fyrsta skipti árið 1927. Tuttugu árum síðar þegar hinn frábæri árgangur 1947 leit dagsins ljós var ákveðið að setja á markað sérstaka ofurútgáfu af því víni er bar heitið Oro (gull). Stíllinn hefur þróast með árunum og er nú orðinn mjög alþjóðlegur, auk Sangiovese (80%) eru líka Cabernet Sauvignon og Merlot í blöndunni. Fyrstu tólf mánuðina liggur vínið í steyptum kerjum en síðan tekur við ár í litlum barrique-tunnum og loks ári í stærri eikarámum. Vínið er dimmfjólublátt, nefið dökkt, kirsuber og blóm, dökkt súkkulaði. Þétt og strúktúrerað í munni, kröftug tannín. Vín sem er enn mjög ungt að yfirbragði þótt það sé orðið sex ára, þoli vel geymslu.
6.399 krónur. Frábær kaup. Mikið vín, elegant, þarf tíma og loftun til að opna sig.
-
9