Rétt eins og Sauvignon Blanc virðist henta nýsjálenskum aðstæðum vel í hvítvínsrækt þá er það Búrgundarþrúgan Pinot Noir sem gefið hefur hvað besta raun í höndum andfætlinganna.
Saint Clair Vicar’s Choice Pinot Noir 2008 er létt og þægilegt rauðvín, sem nýtur sín borið fram í kringum 18-20 gráður, það er rétt undir íslenskum stofuhita. Súrsæt angan af hindberjum og rabarbarasultu, þarna eru líka lauf og rifsberjakrem, haustlegt. Milt og þykkt í munni með mjúkum, sætkrydduðum rauðum berjaávexti.
Með lambakjöti og ferskum kryddjurtum eða mildum ostum.
2.091 króna.