Það slær fátt við góðu kartöflusalati og þegar þetta kom á borðið sagði heimasætan, sem yfirleitt er nú spör á hrósið, „þetta er geggjað kartöflusalat“. Galdurinn á bak við salatið er beikonið og að hræra dressinguna saman á sömu pönnu og beikonið er steikt á.
- 800 g kartöflur
- 1 sellerístöngull, skorinn í litla bita
- 1 lítil rauð paprika, skorin í teninga
- 1 rauðlaukur, saxaður
- 1 lúka fínsöxuð steinselja, helst flatlaufa
- 2-3 egg, harðsoðin og skorin í bita
- 75 g beikon
- 1 dós sýrður rjómi (18%)
- 2 msk majonnes
- 2 msk Dijon sinnep
- 1 tsk paprika
- salt og pipar
Sjóðið kartöflurnar. Kælið, flysjið og skerið í bita.
Skerið beikon í bita og hitið á pönnu í smá olíu þar til að það verður stökkt. Takið þá beikonið af pönnunni og geymið. Skiljið feitina sem hefur runnið af beikoninu eftir á pönnunni. Pískið sýrða rjómann, majonnes og sinnep saman við. Kryddið með papriku. Bragðið til með salti og pipar.
Blandið kartöflum, sellerí, papriku, lauk og steinselju saman í skál. Hrærið dressingunni saman við. Hrærið beikoninu og eggjunum saman við. Kælið í ísskáp í a.m.k. 1-2 klukkustundir áður en borið er fram.
Fleiri uppskriftir að kartöflusalati má finna hér.