Franskbrauðið

Lengi vel var franskbrauð notað sem samheiti yfir allt hvítt hveitibrauð á Íslandi. Vissulega byggist brauðneysla Frakka að miklu leyti á hvítum brauðum en þau eiga þó fátt sammerkt með flestu því hvíta brauði, sem við köllum franskbrauð. 

Vinsælasta brauðið í Frakklandi er hvítt og nefnist baguette . Síðdegis má sjá húsmæður um allt Frakkland ganga heim með þessi löngu brauð stingandi upp úr innkaupa Á Íslandi hefur um árabil mátt kaupa brauð sem eru svipuð hvað útlit varðar og hafa þau verið nefnd snittubrauð.

Snittubrauðin, sem ættu að vera hin einu sönnu franskbrauð, eiga hins vegar fátt sameiginlegt með frönsku brauði. Þau eru mjúk og svampkennd og skorpan lin og notkun þeirra verulega frábrugðin því sem gerist í Frakklandi.

„Bagettur“ eiga að vera með stökkri skorpu og innbrauðið fremur létt og loftkennt eigi þau að þjóna tilgangi sínum, sem er að vera fylgifiskur flestra þeirra málsverða er snæddir eru í Frakklandi.

Á Íslandi og fleiri ríkjum er óalgengt að brauð sé borið fram með máltíð. Það er gert á betri veitingahúsum en brauðið af einhverjum ástæðum oftar en ekki fjarlægt um leið og forréttardiskarnir eru teknir. Franskir veitingahúsagestir þurfa því stundum að eiga í örvæntingarfullum samningaviðræðum til að fá að halda brauðinu sínu.

Brauðið getur þjónað margvíslegum tilgangi. Menn maula það meðan þeir bíða eftir fyrsta réttnum og síðan gjarnan á milli rétta. Þá eru teknir bitar af brauðinu með matnum og ef sósan er einstaklega góð þá er hægt að hreinsa hana upp af disknum með brauðinu. Ef andrúmsloftið er afslappað taka Frakkar brauðbita milli fingranna á sér og hreinsa upp sósuna. Ef andrúmsloftið er stíft og formlegt er talið kurteisara að nota gaffal til að stjórna brauðbitanum þegar sósan er skafin upp.

Nær undantekningarlaust er hins vegar brauðið sjálft borðað með höndunum og það þykir sjálfsagt, jafnvel á formlegustu veitingastöðum Frakklands. Þar sem skorpan á góðu brauði á að vera stökk og af því hlýst töluverð mylsna hafa Frakkar hannað alls kyns tæki og tól til að þurrka hana af borðum milli rétta. Sumir nota litlar ryksugur, aðrir litla kústa og fægiskóflur og enn aðrir sérstaka rúllu, sem rennt er yfir borðið.

Með heimilismatnum er brauðið oft í enn mikilvægara hlutverki, þar sem matargerðin er oft einfaldari. Í sveitum Frakklands er jafnvel ekki óalgengt að brauð sé nánast eina meðlætið. Það kemur ekki af sök ef annað hráefni er gott. Góð nautasteik, Dijon-sinnep, baguette og rauðvín er ágæt uppistaða í litla veislumáltíð.

Þá er „baguette“-brauðið nær ávallt notað í samlokur, sem upptekið fólk borðar gjarnan í hádeginu. Brauðið er þá skorið endilangt, smurt og fyllt með skinku, osti, eggjum, tómötum eða öðru því sem fólk biður um. Sjaldan majonesi og aldrei remúlaði.

Aldrei er þó brauðið mikilvægara en með ostum, sem bornir eru fram við lok flestra máltíða. Dýrari veitingastaðir í Frakklandi bjóða venjulega upp á sérbakað brauð með ostunum, yfirleitt dökkt og oft með hnetum. Einfaldari veitingastaðir og heimili styðjast hins vegar áfram við franskbrauðið.

 

Deila.