La Mancha

 

Um þriðjungur allra spænskra vína hefur verið ræktaður á hásléttunum suður og vestur af Madrid á víngerðarsvæði er nefnist La Mancha en einhverjar fyrstu heimildir um víngerðina þar má lesa í sögum Cervantes af Don Kíkóta er reið um sléttur héraðsins og barðist við vindmyllur. Vindmyllurnar setja raunar enn í dag sterkan svip á svæðið auk þess sem víða má sjá glæsilega kastala er eflaust hafa gegnt lykilhlutverki í sinni sveit á tímum Cervantes.

Vínin frá Mancha hafa lengst af farið fremur hljótt, þettu eru vín er hafa verið framleidd í miklu magni en ekki alltaf með hæstu gæði að leiðarljósi. Þetta hefur verið helsta uppspretta ódýrra stórmarkaðsvína frá Spáni. Það eru helst vínin frá undirsvæðinu Valdepenas sem náð hafa einhverri athygli en þá frekar fyrir að vera hagstæð kaup en stórkostleg vín. Þótt þarna hafi verið ræktuð vín um aldabil var það á síðustu öld sem sprenging varð í framleiðslunni með stofnun nokkurra stórra vínsamlaga er hófu að dæla víni á markaðinn.

Það ber að hafa hugfast að þegar rætt er um La Mancha er ekki verið að ræða um eitthvað hefðbundið, lítið víngerðarsvæði heldur stærsta vínræktarsvæði í veröldinni. Alls er ræktaður vínviður á 200 þúsund hektörum í La Mancha. Vínræktendur eru um 22 þúsund talsins og víngerðarhús um 300, þar af um 100 sem stunda útflutning. Eins og þessi upptalning ber með sér leggja flestir vínræktendur inn þrúgur sínar hjá vínsamlögum eða selja þær til stærri víngerðarhúsa í stað þess að gera vín úr þeim sjálfir.

Það er hins vegar margt að breytast í La Mancha rétt eins og annars staðar í spænskri víngerð. Vínframleiðendur um allan Spán hafa síðastliðinn áratug áttað sig á því að þeir eru ekki að framleiða fyrir sjálfan sig heldur fyrir neytendur.

Það hefur sýnt sig víða um heim á síðastliðnum áratugum að hægt er að rækta ágæt vín við aðstæður er líkjast þeim sem þarna er að finna. Það getur orðið óhugnanlega heitt á þessum slóðum og hitamælirinn fer gjarnan vel yfir fjörutíu stig. Við slíkar aðstæður er eins og rauðleitur jarðvegurinn glói af hita. Heimamenn lýsa stundum veðurfarinu þannig að þeir þurfi að þola fimm mánaða vetur og sjö mánuði í helvíti á hverju ári. Alls nýtur vínviður á þessum slóðum góðs af um 3000 þúsund sólarstundum á ári.

Sérstök löggjöf var sett um vínrækt í La Mancha árið 1932 þar sem sett voru skilyrði er vín urðu að uppfylla til að mega nota skilgreninguna Denominacion de Origen La Mancha. Það var hins vegar ekki fyrr en á áttunda áratugnum að sérstakt ráð var stofnað til að tryggja að DO reglunum væri framfylgt.

Bestu framleiðendur La Mancha hafa hins vegar margir unað sér illa innan vínlöggjafarinnar og jafnvel kosið að standa utan hennar. Vín þeirra nutu virðingar og seldust vel alþjóðlega og áttu um margt lítið sameiginlegt með hinni hefðbundnu vínframleiðslu héraðsins. Nokkrir þeirra hafa jafnvel barist fyrir því að vín þeirra fái sína eigin „einka“-DO-skilgreiningu, það er að segja að DO-skilgreining nái einungis yfir einn tiltekinn búgarð. Ekki eru fordæmi fyrir slíku í evrópskri vínlöggjöf.

Vínræktin byggist fyrst og fremst á rauðvínum og líkt og annars staðar á Spáni er það þrúgan Tempranillo (oft einnig kölluð Cencibel) sem er algengust og uppistaðan í allri víngerð. Einnig eru algengar þrúgurnar Garnacha, Cabernet Sauvignon, Syrah og Moravia. Hvítvínsgerð er ekki mjög umfangsmikil á þessum slóðum en meðal algengustu þrúgna sem ræktaðar eru má nefna Viura og Macabeo.

 

 

 

Deila.