Steiermark

Það víngerðarsvæði sem fæstir utan Austurríkis þekkja er líklega Steiermark, syðsta víngerðarsvæði landsins. Ástæðan? Þetta er lítið víngerðarsvæði og Austurríkismenn hafa séð nær alfarið sjálfir um að neyta þeirra vína sem þar eru framleidd. Smám saman eru þau hins vegar farin að vekja athygli út fyrir landsteinana og fleiri en Austurríkismenn farnir að berjast um flöskur svæðisins.
Steiermark er í suðausturhorni Austurríkis við landamæri Slóveníu. Sums staðar renna vínekrur Austurríkis og Slóveníu beinlínis út í eitt á þessu svæði. Þegar keyrt er um þorp eru bílarnir öðrum megin við götuna með austurrísk bílnúmer en slóvensk hinum megin. Svæðið er þekkt fyrir þægilega austurríska sveitastemningu og góðan mat. Vínin hafa hins vegar ekki fyrr en á síðustu árum vakið umtal og athygli.
Ný kynslóð víngerðarmanna | Það var heldur ekki fyrr en fyrir um 20-30 árum að víngerðin í Steiermark gekk í endurnýjun lífdaga með nýrri kynsóð víngerðarmanna sem gjörbreyttu viðhorfum og framleiðsluaðferðum vínræktenda á þessu svæði. Síðan hefur orðið sannkölluð bylting og vínrækt Steiermark orðin mikilvægur þáttur í landbúnaði svæðisins. Ekrur vínbænda þenja sig sömuleiðis yfir stöðugt stærri svæði og það er ekki síður ástæða þess að þeir geta og verða að leggja aukna áherslu á sölu utan Austurríkis.
Steiermark er fyrst og fremst hvítvínssvæði – rauðvín eru nær óþekkt á þessum slóðum. Það er helst er rósafreyðivínið Schilcher sem sýnir einhvern lit! Það fyrirbæri er raunar með athyglisverðustu sérkennum austurrískrar víngerðar. Þetta sýrumikla freyðivín er frá West-Steiermark og er unnið úr þrúgunni Blauer Wildbacher. Jafnvel hörðustu aðdáendur Schilcher viðurkenna fúslega að það er áunninn smekkur og er fræg sagan af því er hin umbótasinnaði keisari Jósef II gerði lendur margra austurrískra aðalsmanna upptækar á síðari hluta átjándu aldar. Þetta vakti reiði í Páfagarði og hélt páfi til Vínar til viðræðna við Jósef. Ritaði hann í dagbók sína að heimamenn hefðu byrlað sér rósrautt edik er þeir héldu fram að væri vín.
Best á þriðja glasi | En eins og allir þeir sem hafa kynnst Schilcher eru það bara fyrstu glösin sem eru ekkert sérstök – þegar menn eru einu sinni komnir á bragðið þá mega þeir ekki heyra nafnið Schilcher án þess að fá vatn í munninn. Enda hlýtur eitthvað að vera í þrúguna og vín úr henni spunnið þar sem Blauer Wildbacher hefur líklega verið ræktuð á þessum slóðum frá því um þúsund árum fyrir Krist. „Schilcher er best á þriðja glasi,“ segir Gunther Muller frá Domane Muller, einn af betri framleiðendum svæðisins. Þá segir Muller að Schilcher njóti sín hvað best með verhacket sem er hakkað beikonspik sem smurt er á brauð. Hann hafi jafnframt komist að því á ferðalagi í Noregi að Schilcher og hrár fiskur eigi vel saman.
Heimamenn í Steiermark sverja jafnframt að Schilcher auki kynorkuna til muna en þeir sem hafa ferðast um Steiermark komast fljótlega að því að nær allar afurðir heimamanna eru sagðar auka kynorkuna – jafnvel graskersolían – Kernöl – sem íbúum Steiermark þykir svo gómsæt. Enda eru íbúar Steiermark afar brosmildir.
Hvítvínin fyrst og fremst | En það eru fyrst og fremst hvítvínin sem orðið hafa til að vekja athygli á Steiermark. Ég er sjálfur hrifnastur af Sauvignon Blanc-vínum svæðisins sem hafa gífurlega fyllingu og dýpt þótt áfengismagnið sé stundum í mesta lagi (allt upp í 15-16% hjá þeim öflugustu). Helst eiga þau margt sameiginlegt með Sauvignon-vínum Friuli á Ítalíu og stundum má jafnvel greina í þeim Nýjaheimseinkenni. Vín úr Sauvignon Blanc finnur maður vart í öðrum ræktunarsvæðum Austurríkis og annað sérkenni svæðisins er Morillon sem í raun er ekkert annað en góðkunningi vínunnennda Chardonnay. Í höndum bestu framleiðenda Steiermark kynnist maður þessum þrúgum í nýrri mynd – framleiðanda á borð við Gross, Sattlerhof, Polz, Tscheppe, Skoff og Muller.
Að öðrum ólöstuðum þá var það Sattler-fjölskyldan á Sattlerhorf sem lyfti víngerðinni í Steiermark upp á þann stall sem hún er í dag. Willy Sattler er stoltur þar sem við göngum upp brattar brekkurnar á vínekrum hans í Sernau. Efst á hæðinni er sérstök vindmylla svokölluð klapfetopz sem gegnir því hlutverki að hræða fugla er gerast of ágengir í berin. Það sem gerir vín Steiermark einstök, segir Sattler, er hreinleiki og dýpt bragðsins. Það hvernig þrúgan nær að njóta sín til fulls. Sauvignon Blanc sýnir gífurlega breidd án þess að eik komi nokkurs staðar nærri, Morillon getur haft gott af smátíma í tunnu.

 

Deila.