Kúskús eða couscous, litlir hnoðrar úr möluðu semolina-hveiti, er stundum kallað “pasta Mið-Austurlanda”. Það er til af margvíslegum stærðum og gerðum og er mismunandi eftir upprunalandinu. Kúskúsið sem hvað algengast er í verslunum er hið sígilda kúskús Marokkó og Túnis sem er ein af meginuppistöðum norður-afrískrar matargerðar. Það er lygilega auðvelt í matreiðslu. Í raun þarf einungis að bæta við sjóðand vatni í nokkrar mínútur, salti og örlitlu af ólívuolíu eða smjöri.
Hér kemur ein tillaga að góðu kúskús-salati í “tabbouleh”-stíl.
- CousCous
- Kjúklingasoð
- niðursoðnir tómatar
- rauðlaukur
- lime
- steinselja
- mynta
- ólífuolía
Hitið kjúklingasoð á pönnu upp að suðu (ef þið eigið ekki frosnar birgðir af heimatilbúnu soði gerir Oskar-kjúklingasoðið sama gagn). Magn af soði ræðst af magninu af kúskús og ber að fylgja leiðbeiningun á pakka.
Bætið við einni dós af tómötum eða þá þremur tómötum sem búið er að afhýða með því að setja í pott af sjóðandi vatni í 1-2 mínútur, en þá losnar hýðið af, og saxa í teninga. Einnig einum söxuðum rauðlauk og kúskúsinu sjálfu ásamt skvettu af ólífuolíu.
Látið þetta standa í nokkrar mínútur með loki á pönnunni eða þar til grjónin eru orðin mjúk. Bætið þá við búnti af saxaðri steinselju og hnefa af saxaðri myntu. Pressið safa úr einni límónu yfir og 1-2 matskeiðum af ólívuolíu. Yfirleitt þarf ekki að salta þar sem kjúklingasoðið er salt en gott er að smakka salatið til og salta ef þarf.
Kúskús-salat er þá tilbúið og tilvalið meðlæti með sumarmatnum, fljótlegt og gott, t.d. með grilluðu kjöti eða fiski.