Pomerol

Stundum er stærð afstæð. Pomerol er minnsta víngerðarsvæði Bordeaux-héraðs í Suðvestur-Frakklandi og vínhús og ekrur eru sömuleiðis mun fyrirferðarminni en á öðrum svæðum héraðsins s.s. Margaux, St. Emilion og Pessac-Léognan. Ekru svæðisins þekja einungis um 800 hektara samtalsÞegar kemur að vínunum sjálfum er þau hins vegar með stærstu vínum Bordeaux.

Pomerol er á hinum svokallaða hægribakka Bordeaux ásamt St. Emilion en þar er miðað við árbakka Dordogne sem síðan rennur út í fljótið Gironde. Það fer lítið fyrir Pomerol og þegar ekið er um flatlent svæðið er fátt sem bendir til að maður sé staddur í einu allra besta víngerðarsvæði veraldar. Vínhúsin eða Chateau-in eru alla jafna látlaus, jafnvel þau allra bestu, og engar glæsilegar hallir að sjá líkt og t.d. í Médoc. Þetta er bara ósköp venjuleg frönsk sveit.

Vínhúsin í Pomerol hafa vissulega sum hver fengið myndarlega andlitslyftingu enda hefur velgengni svæðisins verið gífurleg á síðustu áratugum. Nokkur húsanna hafa löngum verið talin með þeim bestu í Bordeaux og þarna er t.d. Chateau Pétrus, þar sem framleitt er vín sem að jafnaði er það dýrasta í heimi.

Þar sem engin opinber flokkun er á vínhúsum líkt og á flestum öðrum svæðum Bordeaux (þekktust er Grand Cru Classé flokkun Médoc frá 1855) eru öll vínin einföld Pomerol. Stóru nöfnin eru hins vegar í hugum manna flokkuð með Grand Cru Classé-vínunum og má þar nefna Vieux-Chateau-Certan, Petit-Village, la Conseillante, Gazin, l’Evangile, la Fleur Pétrus, Nenin, Clinet og Trotanoy.

Það var líka í Pomerol sem „bílskúrsvínahreyfingin“ eða garagiste-vínin spratt upp, vín í allra hæsta gæðaflokki ræktuð á mjög afmörkuðu og yfirleitt agnarsmáu svæði. Frægast þeirra er Le Pin.

Meginþrúga Pomerol er Merlot þótt Cabernet Sauvignon komi alltaf við sögu og yfirleitt Cabernet Franc.

Leyndarmálið á bak við Pomerol-vínin er fyrst og fremst einstakur jarðvegurinn. Í efsta lagi hans er mölsandur í bland við sand og leir en þegar neðar dregur tekur við jarðvegur ríkur af járnoxíði sem heimamenn kalla crasse de fer. Vínin eru einstaklega kraftmikil, langlíf en hafa jafnframt mikla mýkt og eru aðgengileg mun fyrr en bestu vín Médoc. Þau einkennast af fjólum, trufflum og miklum, sætum ávexti. Ef árgangurinn er góður toppa þau gjarnan í kringum fimmtán ára aldurinn.

 

 

 

Deila.