Oregon gæti ekki verið frábrugðnara Kaliforníu. Fámennt ríki og dreifbýlt þar sem landbúnaður og skógarhögg eru burðarstoðir atvinnulífsins. Lífið er rólegt og fábrotið og hippamenningin er þar enn í fullu gildi, stjórnmálin mýkri en gengur og gerist í Bandaríkjunum og velferðarkerfið með því fullkomnara, sem finna má í Bandaríkjunum. Stundum hefur maður á tilfinningunni að annar hver íbúi ríkisins hafi atvinnu af því að framleiða lífræna sultu eða aðra hollustu.
Í hinum fögru og fáförnu sveitum Oregon er að finna vínrækt, sem sker sig verulega úr því sem annars staðar má finna í Bandaríkjunum. Hér dafnar Pinot Noir, rauða Búrgundarþrúgan, betur en nokkurs staðar annars staðar utan heimahaganna, og einnig virðist hin hvíta Pinot Gris njóta sín afar vel í Oregon. Framleiðslan er hins vegar ekki mikil og framleiðendur fáir. Það fer lítið fyrir sjálfri vínræktinni og stundum þarf maður að klóra sér í kollinum og spyrja hvort maður sé í raun staddur á vínræktarsvæði. Vínfyrirtækin í Oregon losa rétt hundraðið og því er kannski engin furða að stundum skuli vera langt á milli þeirra. Af því leiðir að Oregon-vínin eru fremur vandfundin. Þau bestu eru þrátt fyrir það eftirsótt og verðið er oftar en ekki fremur hátt.
Þekktasta vínræktarsvæði Oregon er Willamette Valley, er hefst við norðurlandamæri ríkisins og fylgir ánni Willamette River tæplega tvö hundruð kílómetra leið niður að borginni Eugene. Suður af Eugene er svo að finna tvö smærri svæði, Umpuqua Valley og Rogue Valley. Willamette er svalasta og rakasta svæðið af þessum þremur en fjallgarður skýlir þó dalnum fyrir harkalegustu óveðrunum frá Kyrrahafinu. Það er einmitt þetta að mörgu leyti erfiða veðurfar, ekki ósvipað því sem sem er í Elsass, Búrgund og jafnvel á sumum vínræktarsvæðum Þýskalands, sem gerir Willamette jafnkjörið ræktunarsvæði fyrir Pinot Noir og raun ber vitni. Pinot Noir er duttlungafull þrúga og mönnum hefur gengið illa að rækta hana utan Búrgundarhéraðs, ekki síst á heitari svæðum með lengri ræktunartíma. Flestar vínekrur Willamette er að finna í suður- og suðvesturhlíðum þeirra fjölmörgu hæða, sem setja sterkan svip á landslagið og meðal þekktustu undirsvæðanna má nefna Yamhill County og Washington County.
Margir framleiðendur hafa náð einstökum árangri með Pinot Noir og má nefna Ponzi og Sokol Blosser sem dæmi. Þegar franska útgáfufyrirtækið Gault-Millau stillti nokkrum af bestu vínum Frakklands upp gegn vínum annarra ríkja um allan heim gerðist hið ótrúlega. Oregon-vínin völtuðu yfir mörg af þekktustu nöfnum Búrgundarhéraðsins. Vakti þetta furðu eins virtasta framleiðanda Búrgundar, Joseph Drouhin, og ákvað hann að endurtaka smökkunina með sömu vínum en öðrum dómurum. Útkoman var svipuð og náði Chambolle-Musigny 1959 frá Drouhin sjálfum rétt að merja fyrsta sætið í harðri samkeppni við vín frá Eyrie Vineyards.
Nokkrum árum síðar fjárfesti Drouhin-fjölskyldan í stórri víngerð í Oregon og sér dóttir Roberts, Veronique Drouhin, um að tryggja gæði Pinot Noir og Chardonnay-vínanna frá Domaine Drouhin. Þetta þóttu mikil tíðindi í Oregon á sínum tíma og varð tilefni sérstakrar yfirlýsingar af hálfu ríkisstjóra Oregon. Voru íbúar ríkisins á einu máli um að þessi traustsyfirlýsing Drouhin-fjölskyldunnar kæmi Oregon endanlega á kortið.