Tzatziki – hollasta grillsósan?

Grikkir eru miklir grillarar og þeir sem þá hafa sótt heim hafa eflaust nokkrum sinnum fengið tzatziki-sósuna með matnum enda einn vinsælasti meze eða lystauki Grikkja og yfirleitt það fyrsta sem kemur á borðið þegar maður sest inn á veitingastað í Grikklandi. Stundum er hún notuð sem ídýfa með brauði en oftast með kjötréttum á borð við gyros og souvlaki-grillpinnum.

Einhvers konar afbrigði af tzatziki má finna um allan Balkanskaga og raunar einnig í Mið-Austurlöndum og allt austur til Mið-Asíu.

Það eina sem maður þarf er:

  • agúrka
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 dós grísk jógúrt
  • 1/2 sítróna
  • salt og pipar
  • ólífuolía

Skerið agúrkuna í tvennt og hreinsið fræin innan úr henni. Rífið hana síðan niður á grófustu hlið rifjárnsins. Rífið niður hvítlauksrifin á fínu hlið járnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina og matskeið af ólífuolíu ásamt safanum úr hálfri sítrónu. Saltið, piprið og kælið í nokkra klukkutíma fyrir neyslu. Sósuna má vel geyma í kæli í 1-2 vikur.

Það er síðan endalaust hægt að leika sér að mismunandi afbrigðum og bæta við ferskum kryddjurtum. Það er til dæmis mjög gott að bæta við saxaðri steinselju eða myntu. Hvítlauksbragðið er yfirleitt mjög áberandi í grísku tzatziki en þið getið að sjálfsögðu dregið úr eða bætt í hvað hvítlaukinn varðar – allt eftir smekk.

Frábær með grilluðum lambakótilettum og raunar flestu grilluðu kjöti. Ekki spillir fyrir að þetta er líklega langhollasta grillsósa í heimi.

 

Deila.