Bottega dei Vini

Í þröngri hliðargötu út frá helstu verslunargötu Verona er að finna einstakan veitingastað sem ber ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn. Hann hefur verið í rekstri frá því á sautjándu öld og er merktur með látlausu skilti, Bottega dei Vini, eða Vínhúsið. Um leið og inn er komið má sjá að veitingastaðurinn ber svo sannarlega nafn með rentu. Fáir staðir í heiminum gera víninu jafn hátt undir höfði.

Það er ekki nóg með að á vínseðlinum sé hægt að fá eitthvert umfangsmesta úrval ítalskra vína sem hægt er að hugsa sér – alls um 2800 vín – heldur eru veggir veitingastaðarins þaktir vínflöskum, svona rétt til að minna menn á hvar þeir eru nú staddir. Á annað hundrað vín eru seld á glösum og má finna þau á stórri krítartöflu sem hangir yfir barnum.

Í þröngum kjallara Bottega dei Vini eru geymdar um 30 þúsund flöskur og fyrir vínáhugamann er varla hægt að komast nær því að komast í fjársjóðshelli. Tæplega hundrað þúsund flöskur til viðbótar eru síðan geymdar í kjallara í nágrenninu.

Bottega dei Vini er ein helsta menningarstofnun Verona og þar er þéttsetið við hvert borð allt frá því að staðurinn opnar þar til hann lokar. Eigandinn Gianni Pascucci, sem situr og gæðir sér á steik í lok vinnudagsins, færði nýlega út kvíarnar og opnaði stað undir sama nafni í New York. Hann segir að þar sé ávallt einhver fulltrúi staðarins í Verona til að passa upp á hlutina.

Maturinn á Bottega dei Vinier einfaldur ítalskur sveitamatur, pylsur og ostar, grillaðar lambakótilettur með rucola-pesto, risotto, pasta og hrossakjöt. Maturinn er ágætur, ekki stórkostlegur, enda er það stemmninginn og vínseðillinn sem trekkir.

Bottega dei Vini
3 Via Scudi di Francia, Verona
Sími 0039-45-8004535

 

Deila.