Washington

Flestir tengja Washington-ríki í Bandaríkjunum við Seattle. Kyrrahafsborgina við Puget-flóa, sem hefur verið ein helsta miðstöð sjávarútvegs, flugvélasmíði, rokktónlistar og hugbúnaðarframleiðslu í Bandaríkjunum. Loftslagið tekur mið af nálægðinni við Kyrrahafið, það getur verið napurt á veturna en á sumrin verður allt fagurgrænt á skógi vöxnu svæðinu enda úrkoma mikil. Þetta breytist allt ef flogið er í austururátt yfir Cascades-fjallgarðinn, framhjá eldfjallinu Mt. Helena, hæsta fjalli Bandaríkjanna. Á sléttunni sem tekur við af Cascades-fjöllum er úrkoma jafnsjaldgæf og hún er algeng í Seattle. Vestan við Cascades er að finna úrkomumestu svæði Bandaríkjanna. Austur af Cascades er árleg úrkoma hins vegar einungis 15-20 cm á ári og því geta vínræktendur notað áveitukerfi til að stjórna vatnsmagni og fá hina fullkomnu útkomu. Til samanburðar má geta að úrkoma í Bordeaux í Frakklandi er meira en þrefalt meiri.
Miðstöð vínræktar í Washington er í suðausturhluta ríkisins, þar sem landamæri Washington, Oregon og Idaho skerast þótt sum stærri fyrirtæki séu einnig með útstöðvar skammt frá Seattle í grennd við markaðinn. Öll ræktun og næstum því öll víngerð fer fram á þessu svæði. Nokkur fyrirtæki flytja hins vegar þrúgur til Seattle-svæðisins og eru, af sögulegum ástæðum, með víngerðarhús þar.
Víngerð í Washington má rekja aftur til ársins 1825 og í kringum 1910 mátti finna vínrækt á flestum svæðum í ríkinu. Það er hins vegar ekki fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar að víngerðin tekur kipp og fer að færast í nútímalegt horf. Árið 1981 voru víngerðarfyrirtæki 19 talsins en eru í dag rúmlega tvö hundruð. Washington er nú næstmikilvægasta ræktunarsvæði Bandaríkjanna og möguleikarnir eru nær óendanlegir.
Vínframleiðsla í Washington er annars vegar í höndum nokkurra mjög stórra fyrirtækja og hins vegar fjölmargra smærri framleiðenda. Stimson Lane ber höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki en innan samsteypunnar er meðal annars að finna víngerðarhúsin Chateau St. Michelle, Columbia Crest og Snoqualmie. Tveir þriðju allra Washington-vína eru framleiddir innan vébanda Stimson Lane og fyrirtækið er sjötti stærsti gæðavínsframleiðandi Bandaríkjanna. Fyrirtækið er gífurlega metnaðarfullt og m.a. afurða þess eru vínið Col Solare, sem framleitt er í samvinnu við fremsta vínframleiðanda Ítalíu, Piero Antinori markgreifa, og North Star, nýtt víngerðarhús í Walla Walla, sem sérhæfir sig í framleiðslu á Merlot. Markmiðið er hvorki meira né minna en að framleiða „besta Merlot í heimi“.
Þegar ferðast er um Washington og rætt við víngerðarmenn verður maður alls staðar var við mikinn metnað og frumkvöðlaanda. Fæst víngerðarhúsin eru stór, ef miðað er við Kaliforníu, og flest vínin er enn sem komið er erfitt að finna utan Washington.
Smökkun sem ég var boðinn í á vínum nokkurra Yakima-framleiðenda var bókstaflega í borðstofunni hjá þeim Clay Mackey og Kay Simon, sem saman reka Chinook Wines, og heimilishundarnir tveir lágu við fætur manns á meðan húsfreyjan kom með nýbakað brauð. Einhver heimilislegasta smökkun sem ég hef upplifað. Vínin hins vegar í heimsklassa og ekki síst voru það vín frá Chinook, Kestrel, Woodward Canyon og Bridgman, sem stóðu upp úr. Iðulega eru það Merlot-vínin sem standa sig betur en Cabernet, sú þrúga dafnar vel í Washington, og Riesling og jafnvel Pinot Gris koma oft betur út en Chardonnay á þessu svæði, þótt síður en svo sé þar með lítið gert úr Chardonnay frá Washington.
Á Red Mountain, minnsta og yngsta víngerðarsvæði Washington, eru hins vegar kjöraðstæður fyrir Cabernet Sauvignon. Með fyrstu framleiðendum til að uppgötva það var Tom Hedges og hin franska eiginkona hans Anne Marie. Þau hafa byggt upp myndarlegt fyrirtæki, fallegt hús í frönskum chateau-stíl (sem vissulega sker sig úr í Washington-landslaginu) og framleiða frábær vín. Fyrirtækið var stofnað 1987 og fyrst um sinn voru Hedges-vínin einungis seld til Svíþjóðar og voru þau átöppuð þar í landi! Árið 1990 hófst svo sala á bandaríska markaðnum. Hedges framleiðir fjögur meginvín, yndislegan Fumé-Chardonnay, mjög traustan Columbia Valley Red úr Cabernet, Merlot og Syrah, vínið Three Vineyards sem er með bestu kaupum sem hægt er að gera í rauðvínum frá Washington og loks frábæran Red Mountain Cabernet. Líkt og svo margir aðrir framleiðendur er Hedges að gera tilraunir með Syrah og samkvæmt tunnusýni að dæma verður vínið stórkostlegt þegar það kemur á markað eftir 18 mánuði.
Walla Walla-dalnum er best lýst sem tæplega fimmtíu kílómetra langri og þrjátíu kílómetra breiðri dæld, umluktri hæðum er hafa mikil áhrif á loftslagið. Sum svæði eru stundum borin saman við suðurhluta Rónardalsins hvað aðstæður varðar og Syrah nýtur sín einstaklega vel hér. Stórkostleg eru Syrah-vín Glen Fiona, sem framleidd hafa verið undir umsjón víngerðarmannsins og eigandans Rusty Figgins, sem lærði í Ástralíu og hefur einnig starfað hjá Chateau Palmer í Bordeaux. Hann tók raunar á dögunum við víngerðinni hjá North Star og þarf því að einbeita sér að Merlot í framtíðinni.
Aðrir framleiðendur í Walla Walla, sem vöktu athygli voru t.d. Canoe Ridge og L’École no. 41.
Hvert sem maður kemur er mikið um að vera og maður rekst á fólk frá Kaliforníu, Frakklandi og víðar sem hefur hrifist af þessu nýja svæði möguleikanna, þar sem allt er í mótun. Einn þeirra er
Ron Bunnell, yfirvíngerðarmaður rauðvína hjá Chataeau St. Michelle, en hann starfaði áður hjá Kaliforníu-framleiðendunum Beringer og Kendall-Jackson.
Hann segir mjög spennandi að starfa í Washington-ríki eftir að hafa verið víngerðarmaður í Kaliforníu í fimmtán ár. Möguleikarnir séu miklir og nefnir hann Syrah-þrúguna sem dæmi. „Syrah býður upp á gífurlega mikla fjölbreytni í bragðupplifunum.“
Bunnell segir að það sem er hvað mest heillandi við Washington er að menn eru rétt að byrja að uppgötva möguleika fjölmargra svæða. Vínrækt sé enn það ung á þessu svæði að menn séu að fikra sig áfram. „Washington minnir mig um margt á Kaliforníu eins og hún var fyrir tuttugu árum. Það þurfti sýn til að sjá möguleika Washington. Líklega er hér að finna um 50 þúsund hektara, sem enn eru hálfgerð eyðimörk, sem bjóða upp á möguleika á ræktun hágæðavína. Ef allt er lagt saman ættu möguleikarnir á vínrækt að vera álíka miklir hér fyrir ræktun gæðavína og í Kaliforníu.“

Deila.