Crasto 2007

Þau eru því miður sorglega fá rauðvínin frá Portúgal sem hér eru fáanleg. Portúgal er þekktast fyrir púrtvínin sín en Portúgalar hafa jafnframt tekið stórstígum framförum í framleiðslu hvítvína og rauðvína á síðustu árum.

Eitt athyglisverðasta ræktunarsvæðið er Douro-dalurinn sem kenndur er við fljótið Douro er rennur í gegnum norðurhluta landsins og niður til borgarinnar Oporto. Douro er framleiðslusvæði púrtvína en þeim fjölgar stöðugt rauðvínunum sem einnig eru framleidd á þessu svæði.

Quinta do Crasto er eitt besta víngerðarhús Douro og vín þess var fyrir nokkrum árum valið eitt af bestu vínum heims hjá tímaritinu Wine Spectator. Quinta do Crasto er fremur dýrt vín en til er töluvert ódýrari útgáfa er heitir einfaldlega Crasto.

Crasto 2007 er dökkt á lit, út í dökkfjólublátt. Angan vínsins heit, krydduð með rúsínum og sveskjum í bland við ferskari angan af krækiberjum. Ungt með líflegum tannínum og fína lengd.

Hér fær maður mikið vín fyrir peninginn.

2.099 krónur.

 

 

Deila.