Grillaður humar með sítrónu-hvítlaukssmjöri

Þennan humarrétt er hægt að hafa sem jafnt forrétt eða aðalrétt og hægt er að styðjast við hvort sem er hrísgrjón eða pasta sem meðlæti. Miðið magn af humar við það hvort rétturinn eigi að vera uppistaðan í máltíð eða upphafið að lengri matseðli.

Það er tvennt sem þarf að útbúa í upphafi. Annars vegar kryddblöndu á humarinn og hins vegar sítrónu-hvítlaukssmjör.

Í kryddblönduna þarf:

  • 1 msk paprikukrydd
  • 1 msk þurrkaður hvítlaukur úr kvörn (Garlic Powder)
  • 1/2 msk sítrónupipar
  • 1 tsk Maldonsalt

Blandið öllu saman.

Í sítrónu-hvítlaukssmjörið þarf:

  • 1 sítróna
  • 100 g smjör
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 1/2 tsk Cayennepipar

Bræðið smjörið í potti hægt og rólega og slökkvið á hitanum þegar það er orðið fljótandi. Rífið börkinn af sítrónunni á fína hluta rifjárnsins og bætið saman við smjörið. Rífið niður hvítlaukinn á sama hátt og bætið saman við. Kreistið safann úr sítrónunni og bætið saman við. Kryddið loks með Cayennepipar.

Hreinsið humarinn úr skelinni og veltið honum upp úr 1-2 msk af ólívuolíu. Bætið nú kryddblöndunni saman við og veltið humarnum um í skálinni þannig að kryddið þeki allan humarinn.

Ef humarinn er lítill er gott að þræða hann upp á kryddspjót. Grillið humarinn og penslið hann á einu sinni upp úr sítrónusmjörinu á meðan hann er á grillinu.

Ef þið notið hrísgrjón með:

Setið grillspjótin á disk ásamt hrísgrjónum og hellið sítrónusmjöri yfir humarinn.

Ef þið notið spaghettí með:

Sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum. Hellið vatninu frá og setjið pastað í skál. Hrærið sítrónu-hvítlaukssmjörinu saman við spagettíið. Bætið humarnum við og berið fram.

Með þessu mæli ég með góðu Chardonnay-víni, t.d. Fleur du Cap Chardonnay eða Domaine de Malandes Petit Chablis.

 

 

Deila.