Kartöflumús fyrir vandláta

Það þarf ekki mikið umstang til að breyta kartöflumúsinni í eitthvert besta meðlæti sem hægt er að fá með góðu kjöti. Það jafnast til dæmis fátt á við flotta primerib- eða ribeye-nautasteik með þykkri og mjúkri kartöflumús.

Svona gerum við músina. Það má nota bæði meira og minna smjör. Eftir því sem að þið notið meira smjör verður hún mýkri og …betri:

  • 800 grömm af kartöflum
  • 1 dl volg mjólk
  • 150 g smjör við stofuhita
  • Salt og hvítur pipar

Hitið ofninn í 180 gráður.

Flysjið kartöflurnar og skerið í 2-3 sm bita. Sjóðið í söltuðu vatni í um tíu mínútur. Gætið þess að láta vatnið ekki bullsjóða heldur halda því rétt við suðumarkið. Stingið gaffli í kartöflurnar til að tryggja að þær séu örugglega orðnar mjúkar og fínar.

Hellið vatninu frá og setjið kartöflurnar í ofnfast ílát. Skellið inn í ofninn í 2-3 mínútur til leyfa rakanum eftir suðuna að gufa upp.

Maukið nú kartöflurnar vel eða stappið. Ekki setja þær í matvinnsluvél, það fer alveg með sterkjuna í kartöflunum.

Setjið nú maukuðu kartöflurnar í skál í heitu vatnsbaði og blandið smjörinu og mjólkinni saman við. Saltið og kryddið með muldum hvítum pipar.

Nú er þessi stórkostlega kartöflumús tilbúin og bara að bera hana fram með steikinni. Það er þó hægt að gera margvíslegar aðrar útgáfur:

Ef þið viljið hafa músina ennþá mýkri er hægt að skella smá rjóma saman við og/eða eggjarauðu.

Með góðri nautasteik er mjög gott að bæta 1 búnti af mjög fínsaxaðri steinselju saman við.

Þá er loks hægt að gera hvítlaukskryddaða kartöflumús. Takið tvo heila hvítlauka og flysjið hvítlauksgeirana. Setjið í lítinn pott með köldu vatni, hitið upp að suðu og sjóðið í fjórar mínútur. Hellið þá vatninu frá og endurtakið tvisvar sinnum. Eftir þriðja skiptið þrýstið þið hvítlauknum í gegnum fínt sigti. Blandið hvítlauksmaukinu saman við kartöflumúsina á lokastigi.

Ef þið gerir þessa útgáfu er betra að nota svartan pipar en hvítan þegar maður kryddar músina.

 

 

Deila.