Provence tómatar

Tómatar og ólífur eru það sem hvað helst einkenna matarhefðir við Miðjarðarhafið og Provence í Frakklandi er þar engin undantekning. Tomates á la Provençal eru jafneinfaldir og þeir eru góðir.

Það sem þarf er:

  • Tómatar
  • Brauðrasp, heimatilbúið. Ristið brauðsneiðar í ofni og maukið í matvinnsluvél.
  • Steinselja, flatlaufa, söxuð
  • Hvítlaukur, fínt saxaður
  • Ólífuolía

Skerið tómatana í tvennt og hreinsið innan úr þeim með skeið.

Blandið saman brauðmylsnunni, saxaðri steinseljunni og hvítlauknum. Hlutföllinn geta verið breytileg en ágætt er að miðað við nokkurn veginn jafnt hlutfall á milli steinselju og brauðmylsnu og svo hvítlauk eftir smekk.

Setjið tómatana í fat og fyllið með brauðmylsnublöndunni. Hellið  vel af ólífuolíu yfir  mylsnuna í tómötunum og setjið fatið inn í 200 gráðu heitan ofn. Bakið í um 30-45 mínútur, eftir stærð tómatanna. Þeir eiga að vera orðnir vel mjúkir.

Frábært með t.d. lambakjöti.

 

Deila.