T-Bone með gráðaosti og rauðvínslauk

T-Bone er eitthvert besta grillkjöt sem hægt er að hugsa sér og gráðaostur gefur bragð sem smellur ótrúlega vel að grilluðu  kjöti.

  • T-Bone- eða Porterhouse-steikur eftir þörfum. Ef þær eru stórar dugar hver steik léttilega fyrir tvo.
  • 1 dós rifinn gráðaostur
  • 3 laukar
  • 1 dl rauðvín
  • kartöflur
  • smjör
  • ólívuolía
  • salt og pipar

Skerið kartöflur í sneiðar, veltið upp úr ólívuolíu, saltið og piprið. Setjið á grillbakka og setjið þær fyrst á grillið, um korteri áður en þið byrjið að grilla kjötið.

Saxið laukinn og mýkið í smjöri og olíu á miðlungshita á pönnu í um 5 mínútur eða þar til hann byrjar að taka á sig brúnan lit. Hellið rauðvíninu út á, hækkið hitann og látið allan vökva gufa upp.

Saltið steikurnar og grillið í um 3-4 mínútur á hvorri hlið. Athugið að grilltíminn ræðst nokkuð af því hversu heitt grillið verður, hversu þykkar steikurnar eru og hvernig þið viljið þær steiktar.

Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær settar í skál og gráðaostinum blandað saman við á meðan þær eru enn mjög heitar.

Berið fram með klettasalati og góðu rauðvíni. Til dæmis kröftugum Ástrala á borð við Grant Burge Miamba Shiraz.

Deila.