Lífið er tapas við Laurel-stræti

Það er hægt að fá tapas í öllum bæjum og borgum Spánar, flestir barir bjóða upp á einhvers konar smárétti við barborðið. Á fáum stöðum er hins vegar hægt að njóta spænsku tapasmenningarinnar með jafnmögnuðum hætti og í borginni Logrono í Rioja-héraði.

Við götuna Calle del Laurel og hina nærliggjandi Sant Augustin er bókstaflega ekki þverfótað fyrir tapastöðum og þegar líða tekur á kvöldið myndast mikil mannmergð í hverfinu. Alls eru tapasbarnirnir um fimmtíu og það á ekki mikið stærra svæði en Austurvöllur. Þetta er arfleifð þess tíma er litlar vínbúðir var að finna í þröngu miðaldagötunum í Logrono sem þróuðust út í að verða tapas-barir.

Calle Laurel er hluti af lífstíl og menningu fólksins í borginni. Þangað kemur það til að hitta vini og vandamenn, sýna sig og sjá aðra. Fólk sem búið hefur í öðrum löndum segir það alltaf hafa verið það fyrsta sem það gerði þegar það kom heim til Logrono að mæta í Laurel til að hitta gömlu kunningjana og fá allar sögurnar um hvað hefði gerst í bænum í millitíðinni.

Staðirnir eru flestir agnarsmáir og það sama má segja um réttina sem í boði eru. Lítil sneið af pylsu eða djúpsteiktri fylltri papriku. Skinka, rækjur eða sneið af reyktum fiski. Pöntunin kemur á litlum diski ásamt brauðbita. Flestir réttir kosta eina evru stykkið og það sama sama kostar glas af Crianza-víni með.

Sumir staðir sérhæfa sig í einstaka hlutum. Á El Sabas eru bestu tortilla-eggjakökurnar í boði og á Soriano sérhæfa menn sig í grilluðum sveppum. Með þessari sérhæfingu er fjölbreytni Laurel tryggð. Í stað þess að allir staðirnir reyni að bjóða upp á allt myndast og kála hver öðrum í samkeppni og að lokum einsleitni myndast hringrás um hverfið þar sem fólk gengur á milli bara og fær sér smakk af mismunandi réttum á hverjum stað.

Ef þér líkar ekki það sem þú færð á einum stað, röltir þú bara yfir á þann næsta. Fær þér ljúffenga grillaða chorizo-pylsu á Muro eða Patatas Bravas, stökksteiktar kartöflur með majonnesi og sterkkryddaðri paprikusósu á Jubera eða bita af steiktum smágrís á hinum smarta Las Cubanas.

Spánverjar borða seint og það er ekki fyrr en upp úr klukkan níu sem göturnar byrja að fyllast. Á miðnætti loka síðan allir staðirnir og eigendurnir taka til við að sópa upp götuna sem þakin er litlum servíettum um það leyti.

Deila.