Bouchard Pére Chambolle-Musigny 2007

Bouchard-Pére er sögufrægt vínhús í Búrgund og Chambolle-Musigny er með þekktustu þorpunum á svæðinu Cote-de-Nuits. Líkt og fleiri dæmi eru um á þessu svæði skeyttu þorpsbúar nafni þekktustu ekru sinnar, í þessu tilviki Musigny, saman við þorpsnafnið.

Þetta er afbragðsvín, kröftugt og tannískt en jafnframt fínlegt og fágað. Angan þess einkennist af skógarberjum og rifsberjum bökuðum í berjapæ, þarna má líka greina milda kryddtóna, s.s. negul og einnig er eik áberandi.

Það er ráðlegt að umhella víninu einni til tvær klukkustundir áður en það er borið fram. Tilvalið vín til að geyma í 2-3 ár.

Reynið með rauðvínslegnu lambalæri.

5.990 krónur. Góð Búrgundarvín eru ekki gefins.

 

Deila.