Cantina Terlan Terlaner Classico 2009

Terlano er svæði í norður-ítalska héraðinu Alto-Adige. Það gengur einnig undir nafninu Suður-Týról og af sögulegum ástæðum er þýska mikið notuð en þetta Alpahérað deilir landamærum með Austurríki. Á þýsku heitir svæðið Terlan.

Vínsamlagið Cantina Terlano hefur verið í rekstri frá því á nítjándu öld. Stefna þess er að að greiða bændum miðað við gæði þeirra þrúgna sem skilað er inn en ekki magni. Þetta skilar sér í vínunum en kantínan er reglulega flokkuð sem einn besti hvítvínsframleiðandi Ítalíu.

Terlaner er heiti sem er notað yfir blöndu af þremur hvítum þrúgum: Pinot Bianco, Chardonnay og Sauvignon Blanc. Þetta er töluvert óvenjuleg blanda en það er ekki síst heillandi við Terlaner Classico 2009  að sérkenni þeirra allra skína vel í gegn.

Ljóst og tært á lit, brakandi ferskur og titrandi ávöxtur í nefi, þarna er sætt greip og epli, kantalópumelónur og græn vínber. Lifandi og bjart með mikilli bragðdýpt og hreinum ávexti. Fersk sýra en jafnframt rjómamjúkt  og hunangskennt en jafnframt þurrt.

Þetta er fínt vín fyrir feitan fisk á borð við lax og lúðu en einnig skelfisk, s.s. humar og hörpufisk.

2.295 krónur. Mjög góð kaup.

 

 

Deila.