Matargerðin blómstrar í þorpum Valpolicella

Svæðið í kringum borgina Verona í Veneto á Norður-Ítalíu er ekki bara þekkt fyrir vín sín á borð við Valpolicella, Amarone og Soave. Þetta er líka eins og öll svæði Ítalíu mikið matarsvæði og hér eru réttir á borð við risotto, polenta og gnocchi á sannkölluðum heimavelli.

Trattoria Tre Marchetti  (Vicolo Tre Marchetti,19) er stofnun í Verona.  Maturinn er kannski ekki sá stórkostlegasti í Veneto en staðsetningin einhver sú besta sem hægt er að hugsa sér, í hliðargötu steinsnar frá rómverska hringleikahúsinu.

Tre Marchetti hefur verið einn af helstu áningarstöðum borgarastéttar Verona um langt skeið og þegar óperusýningar eru í gangi á sumrin er staðurinn opinn langt fram á nótt og þá má gjarnan sjá bregða fyrir heimsþekktum óperustjörnum sem skella sér í mat að lokinni sýningu.

Innréttingarnar eru þungar og gamaldags óneitanlega töluvert yfirhlaðnar, viðarklæðningar á veggjum ásamt myndskreytingum og flöskurekkum að ekki sé nú minnst á allar myndirnar af fræga fólkinu sem þarna hefur borðað í gegnum tíðina. Risavaxin glös og myndskreyttir diskar á borðum.

Maturinn er þungur og hefðbundinn, gnocchi með sveppum og pancetta, amaroneldað nautakjöt meða polenta. Norður-ítalskur ömmumatur. Vissulega ekki matarupplifun í takt við verðið – þetta er dýr staður. Rétt eins og Bottega dei Vini í nágrenninu er þetta ekki staður sem maður heimsækir fyrir matinn einvörðungu heldur stemmningarinnar vegna. Þjónustan er litrík og eigandinn sem spásserar um á appelsínugulum plastkossum mikill karakter sem hikar ekki við að taka hálfa aríu eða svo. Vínlistinn frábær en fremur dýr fyrir svæðið.

Eftir því sem maður fjarlægist sjálfa Verona lækka verðin og maturinn verður yfirleitt líka miklu betri. Langbestu staðirnir eru í þorpunum umhverfis borgina.

Raunar þarf maður ekki að fara lengra en í útjaðar borgarinnar til að finna perlu á borð við Trattoria San Basilio (Via Antonio Pisano,9) frábæran stað þar sem ungur matreiðslumeistari  setur hefðbundna matreiðslusvæðisins í nútímalegan búning. Stórkostlegir pastaréttir í heimilislegu umhverfi.

En það er í þorpum Valpolicella sem matargerðin fer virkilega á flug.

Sant Giorgio er lítið miðaldaþorp í hæstu hæðum í fjöllunum er umlykja Valpolicella og ef ferðast er í myrkri er eins gott að vera með leiðsögutækið rétt stillt. Ferðalagið er þó vel þess virði ef menn eiga borð pantað á veitingastaðnum Trattoria Della Rosa Alda. Þar ræður  Alda  Rosa ríkjum í eldhúsinu, sem er í útliti ekki bara táknmynd hinnar ítölsku mömmu heldur töfrar hún einnig fram hvern réttinn á fætur öðrum sem fá menn fljótlega til að gleyma ferðalaginu.

Þeir eru einfaldir, pasta með baunum, lambakótilettur með stökku salati, niðursneidd nautalund með raðuvínssósu en einhvern veginn tekst Ítölum oft að gera einfaldleikann að upplifun með þvílíkri alúð við hráefnið að eiginleikar þess springa út.

Það er  sömuleiðis erfitt að ímynda sér unaðslegri upplifun en kvöldverð í Crotto di Corgnano í þorpinu Sant Ambrogio í Valpolicella. Þetta er hreinræktaður fjölskyldustaður sem hefur verið byggður upp í stóru, gömlu húsi er eitt sinn hefur verið heimili ítalskrar stórfjölskyldu. Það er meira að segja ennþá baðkar í baðherberginu á efri hæðinni, þó að það sé nú notað undir blómapotta og skreytingar. Stofum og svefnherbergi hefur verið breytt í litla matsali sem rúma frá einu upp í fjögur borð.

Samheldin fjölskyldan sér um allt sem snýr að mat og þjónustu og það fyrsta sem blasti við þegar inn var komið var fjölskyldufaðirinn að undirbúa brauð og salat kvöldsins á borðinu í anddyrinu.  Enginn er matseðillinn, maður fær það sem er á matseðlinum hverju sinni. Réttur á eftir rétti kemur á borðið hver öðrum stórkostlegri. Einfaldir en með bestu fáanlegu hráefnum eftir árstíð hverju sinni. Tagliatelle með myrkilsveppum, hvítur aspar með hleyptu eggi og lund í vínsósu með polenta voru meðal margra stórkostlegra rétta.

Vilji menn meiri formlegheit í umhverfi og þjónustu er Le Cedrare  í þorpinu Illasi málið. Veitingahúsið er í gamalli höll með fallegum görðum allt um kring og þegar veður leyfið er unaðslegt að snæða úti við. Matreiðslan er nútímaleg og mjög framúrstefnuleg miðað við flesta aðra staði héraðsins, hver og einn stílfærður í útfærslu matreiðslumeistarans Marcantonio Sagramoso. Risotto með ískúlu var líklega frumlegasti rétturinn en sneiðar af nautalund með haug af sveppum, polentu og þykkum trufflusneiðum sá besti.

Deila.