Suður-ítölsk eplakaka

Þessi uppskrift að eplaköku eða Torta di Mele er suður-ítölsk að uppruna og er tilvalið að setja hana í ofninn um það leyti sem aðalrétturinn er borinn fram ef ætlunin er að bjóða upp á hana sem eftirrétt.

 • 6 dl hveiti
 • 200 g smjör
 • 2 dl mjólk
 • 1 dl heimatilbúið brauðrasp
 • rifinn börkur af 1 sítrónu
 • 1 msk lyftiduft
 • 3 egg
 • 100 g sykur
 • 1 msk ólívuolía
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/4 tsk salt
 • 750 g epli (Jonagold eða Granny Smith)

Aðferð:

Hitið ofninn í 190 gráður.

Flysjið eplin, kjarnhreinsið og skerið í þunnar sneiðar.

Smyrjið ofnfast form (13×9 tommur) með smjöri og sáldrið brauðraspinu yfir þannig að það þekji botni og hliðar formsins.

Blandið saman hveiti, salti og lyftidufti í stórri skál.

Setjið 150 g af smjörið og mjólkina í pott og hitið þar til smjörið hefur bráðnað.

Þeytið eggin með handþeytara og blandið 3/4 af sykrinum smám saman út í. Þeytið þar til blandan er orðin þykk og froðukennd. Bætið þá mjólkur- og sykurblöndunni saman við og þeytið vel saman við. Bætið loks við ólívuolíunni, vanilludropunum og rifna sítrónuberkinum.

Bætið loks hveitiblöndunni saman við.

Hellið í formið. Raðið síðan eplasneiðunum ofan í blönduna. Sáldrið afganginum af sykrinum yfir. Skerið síðustu 50 g af smjöri í þunnar sneiðar og dreifið yfir.

Bakið í rúmar 30 mínútur.

Deila.