Maturinn í Madrid

Marga af besu tapasbörum Madrid er að finna við götuna Cava Baja í hverfinu La Latina, suður af torginu Plaza Mayor. Yfir daginn fer lítið fyrir götunni en þegar fer að líða á kvöldið vaknar Cava Baja til lífsins og iðar af lífi. Staðirnir eru fjölbreyttir og ólíkir. Sumir bjóða aðallega upp á drykki og smárétti á borð við skinkubita en þarna eru líka frábærir veitingastaðir á borð við Casa Lucio og Esteban. Sá fyrri er frægari en sá síðari bíður ef eitthvað er upp á betri þjónustu og mat.

Líkt og um fleiri frábæra staði fer ekkert fyrir honum að utan og þegar inn er komið er heldur ekki nútímalegum innréttingum fyrir að fara. Þetta gæti verið sveitastaður hvar sem er á Spáni. Látið það hins vegar ekki blekkja ykkur. Þjónustan er frábær og maturinn stórkostlegur – það er ef menn eru að sækjast eftir klassískri, kastellanískri matargerð. Nautið og grísinn klikka ekki og vínlistinn er stuttur en hrikalega góður. Og svo má auðvitað gera ráð fyrir að stjórnendur Real Madrid sitji á næsta borði.

Á undan eða eftir má svo ganga á milli tapastaðanna í götunni, fá sér staup af sérrí og skinkubita með, t.d. á La Chata.

Samhiða Cava Baja liggur Cava Alta. Líkt og nafnið gefur til kynna liggur hún fyrir ofan (alta) Cava Baja. Alta er ekki nærri því eins lífleg og Baja en þar er að finna Matritum. Staðurinn er stundum flokkaður með tapas-börum en þetta er þó meira veitingahús eða bistro. Það er ekki setið við barinn heldur setið til borðs og á seðlinum er að finna spennandi og skemmtilegar útfærslur af klassískum réttum. Það er hins vegar vínseðillinn sem skiptir máli. Matritum býður upp á frábært úrval af bestu vínum allra héraða Spánar (og annarra ríkja) á virkilega góðu verði.

Við götuna Meson de Paredes er að Taberna Antonio Sanchez, einhvern elsta og þekktasta tapas-stað Madrid. Það þarf hins vegar að fara varlega, því það er auðvelt að ganga fram hjá bæði götunni og staðnum því hann lætur svo sannarlega ekki mikið yfir sér. Staðurinn opnaði fyrst dyr sínar árið 1850 og það hefur ekki mikið breyst síðan. Hann er nefndur eftir syni stofnandans sem var nautabani og lést er naut reif hann á hol. Höfuð nautsins sem varð Sanchez að bana er að finna uppstoppað á vegg staðarins.

Þetta er tilvalinn staður til að setjast niður og fá sér bita af pylsu, t.d. kryddpylsunni Chorizo eða blóðpylsunni Morcillo. Báðar afbragðsgóðar hjá Sanchez. Sömuleiðis má mæla með Callos a la Madrilena eða nautamaga að hætti Madrid-búa. Callos er miklu betra en það hljómar, búið að elda magann í sólarhring eða svo með kryddjurtum og víni þannig að úr verður bragðmikill og góður réttur.

Það verður svo að nefna Mercado San Miguel rétt við Plaza Mayor. Þetta er einn af hinum gömlu matarmörkuðum Spánar sem nýlega hefur verið breytt í eins konar tapashöll. San Miguel nýtur gífurlegra vinsælda enda er þar að finna fjölmarga sölubása þar sem hægt er að kaupa sælkeravörur en líka fá sér matarbita og vínglas. Þarna má fá ólívur, skinkur, ostrur og annað til að narta og setjast niður í sameiginlegu rými og snæða. Stemmningin er frábær og þarna er alltaf opið ólíkt flestum öðrum stöðum þar sem hádegismaturinn er borinn fram á milli 13 og 16 og ekki er opnað fyrir kvöldmat fyrr en í fyrsta lagi klukkan 21.

Meira um Madrid má svo lesa hér.

Deila.