Tahinihjúpaðar lambakótilettur með Byggpilaf

Tahini er mauk úr sesamfræjum, sem er mikið notað í matargerð Norður-Afríku. Það fæst í flestum stórmörkuðum. Í þessari uppskrift er tahini uppistaðan í kryddhjúpi fyrir lambakjöt. Best er að nota frekar þunnar kótilettur. Kryddlögurinn dugar á rúmt kíló af kótilettum. Þær eru síðan grillaðar og bornar fram með pilaf úr byggi og kryddjurtum.

Kryddhjúpur

 • 1 lítil dós Spicy Lemon Tahini
 • 1 dl grísk jógúrt
 • 4 pressuð hvítlauksrif
 • 2 tsk mulið cumin
 • 2 tsk kóríanderkrydd
 • salt og pipar

Blandið öllu vel saman. Veltið kótilettunum upp úr maukinu þannig að maukið þekji þær á öllum hliðum. Látið kjötið liggja í kryddleginum í 30-60 mínútur í ísskáp.

Grillið kótiletturnar í 3-5 mínútur á hvorri hlið. Eldunartími ræðst af þykkt kjötsins.

Byggpilaf

 • 3 dl bankabygg
 • 6 sveppir, saxaðir í litla bita
 • 2 skalottulaukar, fínt saxaðir
 • 2 vænar lúkur af blönduðum, fínsöxuðum kryddjurtum, t.d. steinselju, graslauk, óreganó og myntu
 • 6-8 kirsuberjatómatar, skornir í bita
 • ólífuolía

Sjóðið byggið í um 40 mínútur í rúmum lítra af vatni.  Síið soðvatnið frá með því að setja byggið í sigti. Skolið vel undir köldu vatni.

Þurrsteikið sveppina á sjóðheitri pönnu í 2-3 mínútur. Bætið þá 2 msk af olíu  við ásamt skalottulauknum, kryddjurtunum og tómötunum. Veltið um á pönnunni í 2 mínútur. Bætið þá forsoðna bygginu við. Leyfið bygginu að hitna á ný. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið smá af góðri ólívuolíu yfir í lokin.

Berið kótiletturnar fram ásamt byggpilaf og fersku salati, t.d. blaðsalati með tómötum, ristuðum furuhnetum og góðri vinaigrette-salatsósu.

Með þessu hentar létt og ávaxtaríkt rauðvín, t.d. hið suðurfranska La Vieille Ferme.

 

Deila.