Grillaður kjúklingur með maísrisotto og lauksmjöri

Þessi uppskrift að maísrisotto með sætu lauksmjöri passar einstaklega vel við grillaðan kjúkling. Best er að grilla bringur og læri á beini. Sömuleiðis er best að elda ferska maískólfa í ofni eða á grilli og skafa korninn af. Það er þó líka hægt að nota maís úr dós.

Maísrisotto

 • 2 dl risotto-grjón (Arborio eða Carnaroli)
 • 3 dl maís
 • 1 dl hvítvín
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 2 msk ferskt timjan
 • 5 dl kjúklingasoð
 • ólífuolía
 • salt og pipar

Lauksmjör

 • 1 rauðlaukur, fínsaxaður
 • 1 lúka fínt saxaður graslaukur
 • 1 msk hrásykur
 • 50 g smjör
 • ólífuolía

Byrjið á því að gera lauksmjörið. Mýkið rauðlaukinn í olíu á pönnu. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur er sykrinum bætt við og laukurinn brúnaður, 2-3 mínútur. Bætið næst smjörinu og graslauknum saman við. Saltið og piprið. Takið af hitanum þegar smjörið er bráðnað. Geymið.

Þá er komið að risottoinu. Steikið hvítlaukinn í olíu á miðlungshita í um 2 mínútur. Bætið þá maís og timjan saman við og veltið um í olíunni í um mínútu. Þá er hrísgrjónunum bætt saman við og þeim velt vel upp úr olíunni. Hellið næst hvítvíninu á pönnuna og sjóðið niður í 1-2 mínútur á meðan hrært er í. Hellið loks kjúklingasoðinu á pönnuna og látið malla á miðlungshita í um 15-17 mínútur. Grjónin eiga að vera fullelduð en ekki maukuð.

Blandið lauksmjörinu saman við maísrisotto-ið og berið strax fram með grilluðum kjúkling og fersku salati.

Ferskt sumarlegt hvítvín með, t.d. Montes Chardonnay.

 

 

 

Deila.