Mo Monastrell 2008

Vínin frá vínhúsinu Sierra Salinas voru líklega fyrstu Alicante-vínin sem hingað hafa ratað. Enda er Alicante ekki stórt hérað þegar víngerðin er annars vegar. Vín er ræktað á þrettán þúsund hektörum af um 50 framleiðendum og er eitt af mörgum svæðum sem gerir Spán að mest spennandi vínræktarsvæði Evrópu í dag.

Sierra Salinas er í eigu Castaño-fjölskyldunnar sem á eitt þekktasta vínfyrirtækið í héraðinu Yecla (vín frá Bodegas Castaño hafa verið fáanleg hér)  og Jumilla og hefur unnið gífurlegt starf þar við að efla ímynd þrúgunnar Monastrell. Castaño-fjölskyldan tók höndum saman við svissneska fjárfesta og keypti ekrur með gömlum Monastrell-vínvið í dalnum Sierra Salinas og reisti þar hátækni-víngerð og hefur hafið framleiðslu á vínum þar sem Monastrell er í fyrirrúmi.

Mo 2008 er dökkt og kröftugt, þarf smá tíma til að opna sig. Þéttur, dökkur sólberja- og bláberjaávöxtur í nefi, vínið kryddað og kraftmikið. Heldur áfram eikað með djúpum, nokkuð tannískum ávexti í munni. Hörkuvín fyrir peninginn. Og það sem meira er, þetta vín mun bara halda áfram að batna með næstu árgöngum. Sierra Salinas tók þá ákvörðun þegar fjármálakreppan skall á árið 2008 að draga úr framleiðslu á dýrari vínum fyrirtækisins, Puerta Salinas og Mira Salinas, og nota hluta af þrúgunum sem hafa farið í þau vín í Mo. Það er farið að sýna sig.

1.895 krónur. Frábær kaup.

 

 

Deila.