Chateau Musar 2003

Chateau Musar er eitt helsta „költ“-vín heimsins. Það kemur frá afar ólíklegum stað, Bekaa-dalnum í Líbanon um 30 kílómetra suðaustur af Beirut, og á sér mjög harðsnúinn hóp aðdáenda.

Hochar-fjölskyldan lagði grunninn að Chateau Musar í kringum 1930 og þrátt fyrir borgarastyrjaldir og stríðsátök hefur henni tekist að framleiða vín sín ár eftir ár, með tveimur undantekningum, 1976 og 1984. Það þarf gífurlegan eldmóð til að framleiða heimsklassavín undir þessum kringumstæðum og þegar breska víntímaritið Decanter hóf að útnefna „mann ársins“ árið 1984 var það Serge Hochar frá Musar sem fékk þann heiður í fyrsta skipti.

Musar 2003 er blanda af Cabernet Sauvignon, Carignan og Cinsault og geymir Serge Hochar vínin fyrst í þrjú ár á tunnu og síðan í þrjú ár á flösku áður en hann setur þau á markað. Það er því komin ágætis þroski í vínið en Musar-vínin eru þekkt fyrir langlífi og þola mörg þeirra hæglega 20-30 ára geymslu.

Angan vínsins er einstök, hún minnir um margt á góð, þroskuð vín frá Rhone en síðan er þarna líka eitthvað framandi og villt sem verður vart staðsett, nema þá kannski í Beeka-dalnum. Þykk, sultukennd angan af dökkum berjum, blönduð leðri og balsamikediki. Þykkt með sætum, þægilegum ávetxti í munni, kryddað, þarna er kanil og lakkrís í bland við þurrkaðan og sætan ávöxtinn og mild tannín.

Virkilega gott matarvín, með grilluðu kjöti eða, merkilegt nokk, fylltum kalkún.

5.099 krónur.

 

Deila.