Bollakökur með rabarbara

Bollakökur eða „cupcakes“ er hægt að gera á óendanlega marga veg og hér er það íslenski rabarbarinn sem gefur bragðið. Þessar rabarbarabollakökur þarf að gera í þremur, öllum mjög einföldum, skrefum. Fyrst er gert rabarbaramauk sem síðan er notað til helminga í annars vegar deiginu og hins vegar kreminu.

Rabarbaramauk

Skerið niður rabarbara í bita, það þarf um fjóra bolla. Maukið létt í matvinnsluvél (þá ættu að vera um 2 bollar af mauki) og setjið í pott ásamt 1-2 matskeiðum af vatni. Látið malla á vægum hita þar til að maukið hefur soðið niður um helming.

Deigið

 • 1/2 bolli af rabarbaramaukinu
 • 1 1/2 bolli hveiti
 • 1 bolli sykur
 • 1/4 bolli mjólk
 • 50 g smjör, við stofuhita
 • 2 egg
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk vanilludropar
 • klípa af salti

Hrærið hveiti, lyftiduft og salt saman. Geymið.

Þeytið vel saman sykur og smjör. Blandið eggjum, mjólk, rabarbaramaukinu og vanilludropum saman við. Bolandið næst hveitiblöndunni vel saman við.

Setjið í form og eldið við 175 gráður í um 25 mínútur. Leyfið að kólna.

Kremið

 • 100 g smjör, við stofuhita
 • 1/2 bolli rabarbaramauk
 • 5 bollar flórsykur
 • 1/2 tsk vanilludropar

Þeytið rabaramaukið, smjör og vanilludropa saman. Þeytið loks flórsykurinn smám saman saman við smjörblönduna þar til að kremið er orðið nógu þykkt.

Skreytið kökurnar með kreminu.

Deila.