Venica Collio Friulano 2011

Friuli er nafnið á héraðinu í norðausturhorni Ítalíu upp við landamæri Slóveníu og Austurríkis. Þetta er eitt magnaðasta víngerðarsvæði Ítalíu þegar hvítvín eru annars vegar og sorglegt hversu fágæt þessi vín hafa verið hér á Íslandi.

Collio er eitt besta svæðið innan Friuli og Venica & Venica er í hópi bestu vínhúsanna þar. Þetta er lítið fjölskyldufyrirtæki sem var stofnsett árið 1930 og er nú rekið af fjórðu kynslóð Venica-fjölskyldunnar.

Friulano-þrúgan er töluvert ræktuð í Friuli en hún gekk undir nafninu Tocai Friulano þar til fyrir nokkrum árum. Þá var Ítölunum bannað, að kröfu Ungverja, að nota forskeytið Tocai, rétt eins og vínbændur í Alsace í Frakklandi máttu ekki lengur kalla Pinot Gris Tokay d’Alsace. Friulano er náskyld Sauvignon Blanc og gengur einnig undir nöfnunun Sauvignonasse og Sauvignon Vert.

Þetta er kröftugt og karaktermikið hvítvín, í nefi þurrkaðir ávextir, fíkjur,  möndlur og krydd. Vínið hefur þétta og ferska sýru, mikla lengd og breidd. Reynið með pasta- og risotto réttum með skelfisk, t.d. risotto með humri og saffran. 

2.995 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.