Risotto með humri og saffran

Skelfiskur er mikið notaður við norðanvert Miðjarðarhafið og þar má einnig finna langostino eða langoustine sem er ekkert annað en sama afbrigði og íslenski leturhumarinn. Ítalir nota hann á marga vegu m.a. í risotto.

  • 300 g humar, skelhreinsaður
  • 1 líter humarsoð (allt í lagi að nota humarkraft)
  • 3 dl arborio-grjón
  • 2 laukar, fínsaxaðir
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 2 dl þurrt hvítvín
  • væn klípa af saffran
  • væn lúka af fínsaxaðri flatlaufa steinselju og/eða graslauk
  • 75 g rifinn parmesanostur
  • ólífuolía

Takið um þriðjung af humrinum frá og saxið fínt.

Blandið hvítvíni og saffran saman í glasi.

Haldið humarsoðinu heitu í potti.

Hitið um 3-4 msk af olíu á pönnu og mýkið laukinn í 4-5 mínútur á vægum hita. Bætið þá hvítlauknum saman við og mýkið áfram í 1-2 mínútur og setjið síðan saxaða humarinnút á og veltið um á pönnunni í 2 mínútur eða svo. Þá er komið að grjónunum, setjið á pönnuna, leyfið þeim að hitna vel og blandið saman við það sem fyrir er.

Hækkið hitann aðeins og hellið hvítvíns-saffranblöndunni út á pönnuna. Leyfið að sjóða niður að mestu. Þá er komið að því að ausa soðinu út á pönnuna, einni ausu í einu. Hrærið reglulega í. Það tekur um 20 mínútur að sjóða grjónin. Þegar 3-4 mínútur eru eftir er afganginum af humarhölunum bætt út á pönnuna og leyft að sjóða með.

Þegar grjónin eru tilbúin (ekki mauksoðin heldur með smá biti í miðjunni) er slökkt á hitanum. Það á enn að vera smá vökvi eftir í pönnunni. Hrærið kryddjurtirnar og rifna parmesanostinn saman við. Látið standa í 1-2 mínútur, bragðið til með salti og pipar og berið svo fram.

Það er gott að hafa smá auka nýrifinn parmesan með – og ef þið eigið ólífuolíu í hæsta gæðaflokki skaðar ekki að setja nokkra dropa á diskinn.

Með þessu þarf ferskt, háklassa hvítvín, gott Soave, Pinot Grigio, Chablis eða nýsjálenskan Sauvignon Blanc. Til dæmis Domaine de Malandes Petit Chablis.

Deila.