Torres Vina Sol 2011

Vina Sol er eitt af þeim hvítvínum sem að Torres-fjölskyldan er hvað þekktust fyrir, enda hefur það notið mikilla vinsælda um áratugaskeið, kom fyrst á markað fyrir um hálfri öld. Það er framleitt á heimaslóðum Torres í Pénedes suður af Barcelona úr spænsku þrúgunni Parellada, sem til dæmis er uppistaðan í flestum Cava-freyðivínum Spánverja.

Þetta er ljóst, ferskt og bjart hvítvín, þægileg sítrusangan, græn epli og hvít blóm, létt með ferskri og þægilegri sýru, örlitlu kryddbiti. Veitir manni þægilegan sumaryl. Hentar með gufusoðnum fiski, skelfiski, t.d. rækjum með hvítlauk að hætti Spánverja eða Gambas al ajillo.

1.595 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.